Útvarpslög

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:47:02 (137)

1995-10-09 16:47:02# 120. lþ. 5.3 fundur 3. mál: #A útvarpslög# (Menningarsjóður útvarpsstöðva) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð inn í þá umræðu sem hér hefur farið fram um það frv. sem hér liggur fyrir um niðurlagningu Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Mér fannst afar fróðlegt að heyra orð hæstv. menntmrh. varðandi þetta mál. Sérstaklega fannst mér athyglisvert að heyra hann lýsa því yfir hversu sammála hann var hv. þm. Svavari Gestssyni hvað varðar viðhorf til Menningarsjóðs útvarpsstöðva og slíkra sjóða.

Mér fannst einkar athyglisvert og það hlýtur fleirum en mér að finnast, það viðhorf hans að ef útvarpsstöðvarnar, og þá vil ég sérstaklega tiltaka Ríkisútvarpið, fengju sjálfar að ráðstafa þeim fjármunum sem þær og þá einna helst Ríkisútvarpið hafa sett í þennan sjóð, þá myndu þeir ekki renna til innlendrar dagskrárgerðar. Það mátti skilja orð hæstv. menntmrh. á þann veg vegna þess að hann vænir flm. um það að fyrst þeir vilji að útvarpsstöðvarnar haldi sjálfar þessum peningum, og þar er þá mest í húfi fyrir Ríkisútvarpið, þá verði þar af leiðandi minna um innlenda dagskrárgerð. Þetta finnst mér afar merkilegt viðhorf og undirstrikar það sem hv. 1. flm. sagði hér áðan: Sjóðurinn og tilurð hans og ekki þá síður hvernig hann hefur verið rekinn er auðvitað bullandi vantrú á það fólk sem af fagmennsku er að reyna að vinna innan þessara stofnana. Mér fannst nauðsynlegt að þetta kæmi hér fram og einnig það, að enda þótt menn segi einungis A að þessu sinni í þessu máli, þá er ekki þar með sagt að menn séu ekki tilbúnir til að segja B og C einnig. Þessu máli verður væntanlega vísað til hv. menntmn. og þar fær það umfjöllun. Síðan er auðvitað ekkert eðlilegra en þeir sem hafa af því verulegar áhyggjur, og réttilega að ýmsu leyti, að ekki sé þá til dagskrárgerðarsjóður í landinu eða því að Sinfóníuhljómsveit Íslands fái ekki næg framlög, geri þá til þess viðeigandi ráðstafanir. Og ég vænti þess að slíkar hugmyndir komi fram í hv. nefnd þegar að hún fjallar um frv.

Það er afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, að mál eins og þessi séu tekin á dagskrá hér í sölum Alþingis þannig að viðhorf manna komi fram. Og ég vil endurtaka það, að það var býsna fróðlegt að heyra hver hinn raunverulegu viðhorf hæst. menntmrh. voru í þessu máli.