Útvarpslög

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:51:32 (139)

1995-10-09 16:51:32# 120. lþ. 5.3 fundur 3. mál: #A útvarpslög# (Menningarsjóður útvarpsstöðva) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir fróðlega umræðu um Menningarsjóð útvarpsstöðva. Það er mikilvægt að það komi hér fram að að sumu leyti er hæstv. menntmrh. sammála okkur, flm. þessa frv. Hann telur að Menningarsjóður útvarpsstöðva í núverandi mynd eigi ekki rétt á sér og er hlynntur því að rekstri hans verði hætt í núverandi mynd. Það er ekkert í máli okkar sem bendir til þess að við viljum ekki innlenda menningardagskrárgerð sem mesta hér á landi. Þetta frv. er einmitt flutt til að styðja við og auka dagskrárgerðina eins og kom fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir þessu frumvarpi. Það er alveg skýrt að útvarpsstöðvarnar fá meira fé til dagskrárgerðar ef sjóðurinn væri ekki fyrir hendi. Og ég trúi því ekki að hv. þm. sjái ekki til þess að Sinfóníuhljómsveit Íslands fái fé af fjárlögum til rekstrar og þurfi ekki að vera upp á ljósvakamiðlana komin með 25% af umframrekstrarfé.

En við skulum láta hæstv. menntmn. um að ræða þetta frv. áfram og ég vona að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að menningarsjóðurinn verði lagður niður í þeirri mynd sem hann er í dag og ég vonast til þess að það verði ekki beðið með það þar til að lokinni endurskoðun útvarpslaga, nema að það verði þá alveg á næstunni, þar sem útvarpslögin hafa verið í endurskoðun frá því að þau tóku gildi fyrir tæpum 10 árum.