Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:01:32 (144)

1995-10-10 14:01:32# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., BH
[prenta uppsett í dálka]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í frv. og kom einnig fram í framsögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar var frv. þetta áður flutt á 118. löggjafarþingi og þá af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni einum og sér. Nú er það endurflutt með smávægilegum breytingum og undirrituð hefur fengið þann heiður að gerast meðflm. að málinu. Ég hafði reyndar kynnst málinu örlítið áður í fyrra starfi mínu sem lögfræðingur hjá Alþýðusambandinu þar sem frv. þetta vakti óneitanlega athygli enda tengist það beinlínis vandamálum hverdagsins á þeim vinnustað.

Ég tel ekki ástæðu til að bæta miklu við framsögu 1. flm. en vil þó benda á nokkur atriði til áréttingar, einkum hvað varðar lögin frá 1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Eins og fram kom í framsöguræðu 1. flm. er það svo að dómstólar landsins hafa túlkað ákvæði laganna nr. 19/1979 á þann hátt að ekki verður lengur við unað. Af þeim túlkunum má ráða að aðeins þeir sem eru óvinnufærir þegar forföll eiga sér stað eiga rétt á veikinda- eða slysalaunum hjá atvinnurekanda. Um leið eru þeir útilokaðir sem eru ekki óvinnufærir þegar forföllin verða. Þetta þýðir að allir þeir sem fara í fyrirbyggjandi aðgerðir að ráði læknis án þess að vera orðnir óvinnufærir missa rétt til launa í forföllum sínum.

Í raun er óvinnufærni ekki alfarið skilyrði fyrir greiðslu veikindalauna samkvæmt lögunum frá 1979 heldur er það skilyrði sett að forföll stafi af sjúkdómi eða slysi. Forföll geta verið af ýmsum ástæðum en ef óumdeilt er að um er að ræða óvinnufærni sem stafar af sjúkdómi eða slysi á viðkomandi rétt til launa í forföllunum. Dómstólar hafa hins vegar lagt hugtakið óvinnufærni til grundvallar niðurstöðum sínum. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að fullyrða í niðurstöðu dóms að það væri skilyrði 5. gr. laganna að verkafólk væri óvinnufært vegna sjúkdóms eða slyss en slík túlkun hefur verið dregin í efa af fræðimönnum enda nefnir lagagreinin ekki þetta skilyrði.

Eins og hér hefur verið rakið hafa dómstólar túlkað ákvæðið á þann veg að réttur verkafólks til launa í veikinda- og slysaforföllum er vægast sagt mjög óljós og réttarstaðan brotakennd. Hugtakið óvinnufærni sem hefur verið lagt algerlega til grundvallar er túlkað svo bókstaflega að fólki er á engan hátt tryggð þau réttindi sem í upphafi var ætlað með lögunum, þ.e. að tryggja launafólki rétt til fjarveru í veikinda- og slysaforföllum.

Í greinargerð með lögum nr. 16/1958, sem voru undanfari laganna frá 1959, og í umræðum um þau lög kemur fram að aðaltilgangur þeirra hafi verið að bæta kjör launafólks, verkafólks, hvað varðar uppsagnarfrest og rétt til launa í veikinda- eða slysaforföllum. Staðan í dag er hins vegar eins og ég sagði áðan mjög óljós og á engan hátt sanngjörn enda segja dæmin úr hinu raunverulega lífi okkur að mikið misræmi sé á milli fólks, jafnvel þeirra sem eru hrjáðir af sama sjúkdómi.

Við getum tekið sem dæmi þann sem fer í hjartaþræðingu. Dómstólar hafa talið að sá sem fer í hjartaþræðingu skuli ekki fá greidd veikindalaun nema hann sé óvinnufær þegar hann fer í aðgerðina. Við getum tekið sem dæmi mann sem hefur greinst með kransæðastíflu á háu stigi sem krefst lagfæringar. Læknir segir manninum að án þræðingar geti hann verið í bráðri hættu og ráðleggur honum að fara strax í aðgerðina. Starfsmaðurinn á ekki rétt á launum í forföllum sínum vegna þessa þar sem hann var ekki óvinnufær þegar hann fór í aðgerðina. Sé hann hins vegar svo ,,heppinn`` að hafa dottið niður á eldhúsgólfinu heima hjá sér og hafa verið borinn á skurðarborðið á hann rétt á veikindalaunum.

Við getum tekið fleiri fáránleg dæmi. Kona sem varð óvinnufær vegna skurðaðgerðar á endajöxlum fékk ekki veikindalaun í forföllum sínum þar sem hún var vinnufær þegar hún fór í aðgerðina. Aðgerð á kjálka til að rétta tennur og bit var ekki talin stofna rétt til veikindalauna. Af tannlækni var aðgerðin talin fyrirbyggjandi og gerð af heilsuverndarástæðum. Kona sem fór í æðahnútaaðgerð var ekki talin eiga rétt á launum í fjarveru sinni frá vinnu þar sem hún var ekki talin hafa sýnt fram á óvinnufærni áður en hún gekkst undir aðgerðina.

Dæmi eins og þau sem hér hafa verið nefnd úr bláköldum raunveruleikanum mætti lengi telja upp. Sér hver heilvita maður að í slíkum lögum er ekkert réttlæti. Slík lög eru bara ólög á meðan þau eru túlkun á þennan veg enda er staðreyndin sú að réttindi launafólks varðandi launa- og slysaforföll á almennum markaði hafa verið í gífurlegri óvissu og verður að segjast eins og er að ekki hefur verið auðvelt að ráðleggja fólki að leggja mál sín í slíkum tilfellum fyrir dómstóla.

Það hlýtur að vera hlutverk löggjafans að taka af skarið í þessum efnum og gera lögin þannig úr garði að þau verði eðlileg og skýr. Eina leiðin til að meta hvort forföll séu nauðsynleg er að fara að mati læknis í þeim efnum. Ég fagna því niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í máli starfsmannsins hjá Íslenska álfélaginu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði til hér áðan í framsögu sinni, ekki síst vegna þess að þar er viðurkennt að rétt sé að leggja faglegt mat læknis til grundvallar.

Læknir sá sem ráðleggur manni að fara í aðgerð er betur til þess fallinn en nokkur annar að meta hvort aðgerðin sé nauðsynleg eða ekki enda hlýtur mat fagmannsins í þeim efnum í flestum tilfellum að vera rétt. A.m.k. eru fáir aðrir útvaldir til að meta slíkt og allra síst atvinnurekendur sjálfir.

Virðulegi forseti. Ég hvet þingheim til að skoða þetta þjóðþrifamál vel og vendilega og greiða fyrir því að launafólk geti sofið rótt yfir því hvort það lifi það af að detta niður á gólfinu heima hjá sér í stað þess að fara að ráði læknis og fara í fyrirbyggjandi aðgerð. Eins og launin eru hjá allt of mörgum í þjóðfélaginu getur það skipt sköpum hvort fólk fær fráföll sín greidd eða ekki og ég veit þess dæmi að fólk hefur hikað og jafnvel hætt við að fara í aðgerðir vegna vitneskju um launaleysi í slíkum forföllum. Það er ekki á hremmingar sjúkra bætandi sem þurfa ekki aðeins að leggja út í verulegan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu heldur þarf fólk líka að leggja niður fyrir sig hvort það hefur efni á því að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Þjóðfélagslegur skaði af slíku ástandi er öllum ljós og fáránleikinn orðinn alger þegar leggja þarf út í stórfelldan kostnað vegna lækninga sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir með fyrirbyggjandi aðgerðum. Það má segja að eins og réttarstaða launafólks er í dag í þessum efnum er ekki beinlínis verið að hvetja fólk til forvarna.

Frv. nær til annars réttlætismáls sem eru fjarvistir frá vinnu vegna glasafrjóvgunar en þær hafa ekki verið taldar falla undir greiðsluskyld forföll jafnvel þótt ófrjósemi kunni að stafa af sjúkdómi. Í sama orðinu er líffæragjöf sem samkvæmt orðum frv. veitir skýlausan rétt til launa í forföllum svo fremi sem önnur skilyrði laganna eru uppfyllt. Hæstv. félmrh. lýsti því yfir áðan að hann hefði áhyggur af því að fólk taki upp á því að fara í stríðum straumum til að láta tína úr sér líffærin og gefa þau í þeim tilgangi að fá greidd laun í veikindaforföllum. Ég er undrandi á þessari afstöðu hæstv. félmrh. Ég tel að engin hætta sé á slíku ástandi. Ég hef meiri trú á launafólki en svo.

Hæstv. félmrh. hefur líka tileinkað sér ýmis önnur rök atvinnurekenda í máli þessu og eins og kom fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er þetta mál ekki nýtt og hefur lengi verið deilt um það milli aðila vinnumarkaðarins en hæstv. félmrh. taldi rétt að um þetta ættu aðilar vinnumarkaðarins að semja sín á milli. Vissulega er mjög gott að aðilar vinnumarkaðarins semji um sem flest mál sín á milli sem heyra undir þeirra verksvið. En ég get fullyrt að þessar reglur væru ekki til og ekki neitt í þá veru ef beðið hefði verið eftir jáinu frá atvinnurekendum. Því miður er það báköld staðreynd.

Varðandi sjúkrasjóðina, sem komið var inn á hér áðan hjá hæstv. félmrh., þá er þeim ætlað samkvæmt lögum og reglum þar um að taka við þegar greiðsluskyldu atvinnurekenda lýkur samkvæmt lögum. Lögunum var ætlað að tryggja þeim sem forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa laun í forföllum sínum í tiltekinn tíma. Sjúkrasjóðunum er síðan ætlað samkvæmt lögum nr. 55/1980 að taka við þegar greiðsluskyldu atvinnurekenda lýkur.

Eins og lögin frá 1979 eru í dag og með hliðsjón af þeim túlkunum sem um það hafa gengið er réttarstaðan mjög óljós. Greiðsluskylda atvinnurekenda er óljós og dómaframkvæmd misvísandi sem gerir það að verkum að ákveðinn hluti fólks er í tómarúmi, á hvorki rétt til greiðslna úr sjúkrasjóði né launa frá atvinnuveranda og slíkt ástand er algerlega óviðunandi.

Virðulegi forseti. Ekki verður lengur búið við þessa óreiðu í málefnum þess launafólks sem þarf að vera frá vinnu vegna veikinda eða slysa. Alþingi Íslendinga á að sýna sóma sinn í því að taka á þessum málum og þótt fyrr hefði verið.