Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:11:05 (145)

1995-10-10 14:11:05# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er komið inn á mjög merkt mál og á margan hátt er það rétt sem síðasti ræðumaður sagði að það er ákveðin óvissa og ákveðið tómarúm í þessu máli en ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétta leiðin sem hér er lagt til að sé farin. Hér er verið að leggja enn meiri álögur á fyrirtæki landsins sem eru mörg hver mjög illa undir það búin vegna smæðar að taka á sig svona áhættu. Áhættan felst í því að kannski einn af þremur til fjórum starfsmönnum veikist eða fari í fyrirbyggjandi aðgerð sem er báðum til hagsbóta en getur riðið litlum fyrirtækjum að fullu.

Á Íslandi eru ein tvö kerfi ef ekki fleiri sem taka á þessum málum. Við erum með sjúkrasjóðina þar sem 1% af launum allra Íslendinga renna til. Ég bendi á til samanburðar að inn í lífeyrissjóðakerfið renna 10%. Sjúkrasjóðirnir voru settir á með mjög skömmum fyrirvara og að því er mér skilst hafa þeir mjög veikt hlutverk. Það er ekki búið að skilgreina hlutverkið og það væri miklu nær að setja lög um það hvað sjúkrasjóðirnir eigi að gera við þessa 1,5 milljarða sem þar hafa safnast upp. Það er ekki eðlilegt að sjúkrasjóðir safni peningum. Í lífeyrissjóðum, sem eru að safna upp til ellinnar, er eðlilegt að það verði uppsöfnun en í sjúkrasjóði á ekki að vera uppsöfnun eins og er í dag. Miklu nær væri að láta sjúkrasjóðina, sem eru í vörslu verkalýðshreyfingarinnar, borga þessi slys eða tjón sem hér er verið að fjalla um en láta veikburða lítil fyrirtæki standa undir þessu.

Við verðum að fara að horfa til þess að það eru fyrirtækin sem standa undir öllu velferðarkerfi okkar. Þau borga launin, þau borga skattana að miklu leyti og við verðum að fara að gæta þess að leggja ekki meiri byrðar á þau en þau þola.