Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:24:22 (148)

1995-10-10 14:24:22# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera neinum upp skoðanir en hér var það dregið fram sem andmæli af hv. þm., gegn því að lögfesta þau ákvæði sem hér eru lögð til að það gæti komið sér illa fyrir hin minni fyrirtæki í landinu. Það er dregið hér fram, það sjónarmið er alveg skýrt. Ég tel það ekki rök í þessu máli. Ég tel að eðlileg viðbrögð minni fyrirtækja og fyrirtækja almennt í landinu séu að tryggja sig gagnvart slíku. Eru ekki fyrirtækin í landinu að tryggja sig gagnvart margs konar áföllum? (PHB: Með sjúkrasjóðunum.) Ég held að þau eigi að leita sér trygginga gagnvart slíku og taka sér til fyrirmyndar þá sem framsæknari og framsýnni eru í þessum efnum heldur en íslensk atvinnurekendasamtök og leita þeirra leiða. Og ég vil ekki, virðulegur forseti, trúa því að þessi sjónarmið eigi hér almennt fylgi. Ég held að það væri fróðlegt fyrir hv. þm. að lesa umræður sem fóru fram hér á sínum tíma þegar þetta mál var fyrst borið hér fram. Þar komu m.a. fram þingmenn úr Sjálfstfl. sem töldu þetta eðlilega og sjálfsagða réttarbót. Ég nefni núv. 10. þm. Reykv., Guðmund Hallvarðsson, sem dæmi um þingmenn sem stóðu í fæturna og stóðu á rétti launafólks í þessum efnum. (GHall: Og hafa ekki breytt um skoðun.)