Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:27:59 (150)

1995-10-10 14:27:59# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá liggur það alveg ljóst fyrir hvar mótorinn er að finna, hverjir það eru sem draga vagninn, þessa þjóð. (EOK: Atvinnulífið.) Það var fyrrv. formaður Vinnuveitendasambandsins sem tók það að sér að vera þessi mótor og benda á það hér með sínum ummælum að þar væri mótorinn að finna. Það er ekki fólkið sem starfar við fyrirtækið, það er ekki driffjöðrin. Og hv. þm. ætlaði mér að líkja samtökum atvinnurekenda við úlfinn í þessu sambandi. Það voru ekki mín orð. Aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur sem og viðsemjendur þeirra, launafólkið í landinu, það á hvort tveggja sinn rétt og sín sjónarmið og tekst á. En það er nú því miður að úlfana er að finna nær okkur í þessu efni heldur en úti í bæ. Það sem gerst hefur m.a. er að þeir sem voru einu sinni í reiptoginu öðrum megin við borðið í hinum frjálsu samskiptum atvinnurekenda og launafólks hafa tryggt sér seturétt, hæstv. forseti, á Alþingi Íslendinga, sem þeir hafa reyndar rétt til. En þeir eru hérna og hafa af því sumir hverjir tvöfaldan starfa. Ekki hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem hér talaði, ég er ekki að nefna að hann hafi tvöfaldan starfa af því eða að hann sé báðum megin við að störfum. En það eru líka fulltrúar hér sem eru báðum megin að störfum, bæði á Alþingi Íslendinga og sem beinir starfsmenn atvinnurekendasamtaka í landinu. Þetta liggur auðvitað fyrir og þetta er mjög fróðlegt fyrir menn að hafa í huga þegar mál af þessum toga eru rædd hér á Alþingi.