Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:31:48 (153)

1995-10-10 14:31:48# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég tel alveg óþarfa fyrir hv. 4. þm. Austurl. að vera með einhverja Rauðhettukomplexa. Ég er hvorki úlfur hvað þá að hann þurfi að vera hræddur um að ég gleypi sig. Það kann að vera að ég hafi nokkurt magarúm en ekki fyrir svo mikinn mann sem hv. 4. þm. Austurl. (Gripið fram í: Ertu þá Rauðhetta?)

Niðurstaða mín var sú að aðilar vinnumarkaðarins ættu að reyna að semja um þetta ágreiningsatriði. Það er nefnd að störfum um samskiptareglur á vinnumarkaði. Þessari nefnd veitir forustu mjög hæfur starfsmaður í félmrn., Gylfi Kristinsson. Ég hef fylgst nokkuð með starfi nefndarinnar og mér sýnist að það fari vel fram. Það er góður andi í þessum samskiptum og viðræðunum miðar mjög lukkulega áfram. Ég vakti hins vegar í þessari stuttu tölu minni áðan athygli á eindreginni andstöðu annars aðilans, þ.e. vinnuveitenda. Ég er á móti því í viðkvæmum efnum eins og þessum að keyra yfir annan. Ég væri einnig á móti því að vinnuveitendur keyrðu yfir verkalýðshreyfinguna ef því væri að skipta. Ég vil stuðla að samkomulagi ef nokkur leið er að ná því. Það var ekki hnippt í mig af vinnuveitendum. Sannarlega ekki. Enda er ég nú ekki viðkvæmur eða fljótur að kippast við jafnvel þótt einhver sé að ýta við mér.

Ég hef aldrei haldið því fram, herra forseti, að menn færu að láta tína úr sér líffæri atvinnurekendum til bölvunar eins og mér fannst koma fram hérna í einni ræðunni. Ég vil að menn reyni að semja en ef ekki tekst að koma mönnum saman um sanngjarna lausn þá tel ég að hægt sé að athuga lagasetningarleið. En ég vara við því að einstakir þingmenn séu að grípa inn í mál á viðkvæmu stigi beinlínis í því skyni að hleypa þeim upp.

Ef ég yrði vitni að því að vinnuveitendur t.d. ætluðu að beita verkalýðshreyfinguna óbilgirni þá gæti ég sem félmrh. hæglega hugsað mér að beita mér fyrir lagsetningu til að rétta hlut verkalýðshreyfingarinnar. Og ef verkalýðshreyfingin sýndi mikla óbilgirni þá gæti ég jafnframt hugsað mér að leysa mál með lagasetningu. En á meðan málið er í skikkanlegum og góðum farvegi og nefndin um samskiptreglur á vinnumarkaði er á góðri siglingu þá tel ég óheppilegt að hleypa því góða samstarfi upp með vanhugsuðum inngripum af hálfu Alþingis.