Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:37:57 (155)

1995-10-10 14:37:57# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. 4. þm. Austurl. veit af löngum kynnum okkar og löngu og góðu samstarfi þá er ég afar friðsamur maður og forðast deilur í lengstu lög. Í þessu máli hef ég alltaf viljað leita samningaleiðarinnar og reyna samninga á meðan einhver von er að þeir takist.

Hvað varðar ábendingar hv. þm. um það sem hann kallar rétta hugsun þá hrökk ég dálítið við. Ég veit ekkert hvað er rétt hugsun og ég held að það sé óheppilegt að menn bíti sig í það að eitthvað sé rétt hugsun. Það hefur farið illa fyrir ríkjum sem hafa verið byggð á þeirri stjórnmálaskoðun að þeirra hugsun væri rétt og öll önnur hugsun röng.