Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:41:49 (157)

1995-10-10 14:41:49# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Hvað frv. um rétt til launa í veikindaforföllum varðar þá er það rétt eins og kom fram hjá hv. 1. flm., Hjörleifi Guttormssyni, að á síðasta þingi fór ég yfir þessi mál og lýsti þeim vanda sem blasir við mörgum launþegum hvað áhrærir rétt í veikinda- og slysatilfellum. Ég hef ekki breytt um skoðun varðandi þetta mál en vildi þó aðeins geta þess að gefnu tilefni vegna orða hæstv. félmrh. að þessi mál eru mjög flókin og vandmeðfarin. Þó menn greini hér á um það hver sé mótor eða prímus mótor þá ætla ég ekki að blanda mér í þá umræðu. Hitt er annað mál að orðið óvinnufærni hefur oft á tíðum valdið miklum vanda og úlfúð og deilum á milli launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda. T.d. er mjög algengt að sjómaður sem hefur slasast og hefur aldrei stundað neitt starf nema sjómennsku sé útskrifaður frá læknum sem vinnufær til léttra starfa. Og hvaða störf skyldu það vera? Sjómaður sem hefur kannski ekki stundað önnur störf í 30 ár og þekkir ekki annað er hæfur til að fara í skrifstofustörf að mati lækna. Við þekkjum líka dæmi um að læknum geta verið mislagðar hendur við það ábyrgðarmikla starf að vega og meta það hvort viðkomandi launþegi sé vinnufær eða óvinnufær og að hve miklu leyti. Oft er þetta mikill vandi fyrir lækninn sem vill t.d. forðast að spila á kerfið, sem því miður eru dæmi um, þó ekki mörg. Hann vill samt sem áður firra sig því að viðkomandi aðili sé flokkaður annað en það sem hann getur um, þ.e. að hann sé vinnufær að hluta til.

Mér sýnist þegar litið er yfir þetta frv. og kannski völlinn allan sem snýr að veikinda- og slysarétti launþega --- að málið sé nokkuð stærra heldur en hér kemur fram. Að hluta til get ég tekið undir það með félmrh. að auðvitað væri best ef aðilar gætu sest niður og fundið flöt á þessu máli. Það sem hins vegar skyggir þar á er það að verkalýðshreyfingin hefur um langt árabil viljað taka þetta mál upp og finna flöt á því. En það hefur einhverra hluta vegna ekki náðst samkomulag um það.

Með sama hætti eru líka vinnuveitendur mismunandi vel tryggðir gagnvart veikindum eða slysum sinna starfsmanna. Það er kannski líka hlutur sem þyrfti að skoða. Ég get t.d. bent á að útgerðarmenn fiskiskipa eiga rétt á endurgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins ef sjómaður slasast og er frá störfum t.d. í tvo mánuði. Þá sækir viðkomandi vinnuveitandi staðgengilslaunin upp í Tryggingastofnun. En útgerðarmaður kaupskips nýtur ekki þess sama. Ég er hins vegar ekki kunnugur þeim reglum sem gilda um atvinnurekstur í landi en ég hygg að þar séu ýmsar reglur til sem valda innbyrðismismunun í kerfinu.

Allt er þetta hið vandræðalegasta mál og vandmeðfarið en ég held að nú þurfi aðilar að taka á sig rögg. Ég tek undir það sem kom hér fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur. Það eru auðvitað takmörk fyrir þeim álögum sem fólk sem lendir í veikindum eða slysum getur á sig tekið. Það getur t.d. tekið dómstóla langan tíma að dæma um þann rétt sem viðkomandi aðili á eftir slys. Það eru jafnvel dæmi til þess að sjómenn, sem hafa slasast, eru lengi frá vinnu og í málaferlum um langt árabil, lendi í slíkum ógöngum að það hafi kostað þá hjónabandið og nánast allar þeirra eignir.

Dómskerfið er allt of seinvirkt hér á landi varðandi réttarstöðu slasaðra launþega. Það er hlutur sem líka þarf að skoða. En eins og þessi mál blasa við mér með tilliti til þess að vinnuveitendur hafa mismunandi stöðu gagnvart kröfu á þriðja aðila ef um slys eða veikindi er að ræða og launþegar hafa mismunandi vægi varðandi réttarstöðu þegar um óvinnufærni er að ræða, þá held ég að það sé rétt að skoða þessi mál nánar. Flm. hefur hvatt þingmenn til að kynna sér þær umsagnir sem komið hafa fram varðandi þetta mál og það mun ég vissulega gera.