Umboðsmenn sjúklinga

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:24:10 (163)

1995-10-10 15:24:10# 120. lþ. 6.8 fundur 25. mál: #A umboðsmenn sjúklinga# þál., RG
[prenta uppsett í dálka]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem komu fram í framsögu fyrir þessu máli og vil í upphafi máls míns koma inn á athugasemd sem kom frá hv. 12. þm. Reykn., Kristínu Halldórsdóttur, um mál sem áður hefur komið fram hjá Kvennalista, áþekkt því sem hér er flutt. Má segja að sú breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, sem þar er lögð til, sé að einhverju leyti áþekk þeirri sem við erum að fjalla um enda þótt ég líti svo á að það sé samt um nokkuð annars konar tillögu að ræða. En ég fellst á það að þetta séu lík mál og mér þykir leitt að við þess vegna skyldum ekki geta haft samráð við Kvennalistann um þetta mál.

En aðeins út af orðum þingmanns um að e.t.v. sé það vegna þess að stjórnarliðar viti ekki nægilega um hvað kemur fram á þinginu má ég til með að veita andsvar við því vegna þess að ég hef verið stjórnarliði í sex ár og hef haft mikla viðveru og langa setu í þingsal og borið bæði mikla umhyggju og virðingu fyrir Alþingi og hef litið svo á að ég hefði nokkuð góða yfirsýn yfir það sem hér kæmi fram og trúlega barið augum flestar tillögur sem hafa komið hér á borð. Hitt er svo annað mál að það eru ekki bara stjórnarandstæðingarnir sem búa við það að mál þeirra sem þingmanna komast á dagskrá hv. Alþingis dagstund sem þessa og hverfa síðan til nefndar án þess að koma frekar til umfjöllunar þings, falla í dvala í þingnefndinni og fá í mesta lagi umfjöllun þar og koma sjaldan þaðan út. Það er ekkert síður hlutskipti þeirra sem sinna þingstörfum á vegum stjórnarflokkanna og jafnvel í enn þá ríkari mæli. Auðvitað er það svo að þegar mál hafa komið fram á liðnum árum án þess að ná fram og hafa jafnvel breyst er það ekki óalgengt að mál komi fram er líkjast einhverju sem áður hefur verið á dagskrá eða tengjast öðrum málefnum og það höfum við líka öll búið við. Þetta vil ég gjarnan að fram komi vegna þeirrar athugasemdar sem kom frá Kvennalistanum.

Ég lít svo á að þetta mál sé afar mikilvægt og hefur verið vísað til þess hversu margar kvartanir hafa komið fram og hafa borist til landlæknisembættisins á liðnum árum. Við vitum að það er einungis brot af því sem upp kemur hjá sjúkrastofnunum sem kemur inn á borð landlæknisembættisins, hvað þá heldur að þau fari lengra en það er alltaf nokkuð um það að slík mál gangi enn þá lengra en til næsta yfirvalds og þannig hafa mál bæði farið fyrir dómstóla og til Hæstaréttar og einnig til umboðsmans Aþingis. Í nýlegri skýrslu frá umboðsmanni Alþingis eru fimm mál sem varða heilbrigðisstofnanir án þess að ég ætli að fara nánar inn á það.

Auðvitað er mjög mikilvægt að einstaklingur, sem mundi sinna starfi eins og þessu, sé til þess bær að vísa málum til annarra aðila hvort heldur er til siðanefndar sjúkrahúsa, læknaráða eða yfirmanna sviða eða annarra sem hafa með málefni sjúklinga að gera eins og hér hefur komið fram. En það sem er afar mikilvægt er að starf sem þetta, sem hér er gerð tillaga um, verði mjög vel skilgreint, þ.e. að umboðsmaður hafi óumdeilda og viðurkennda stöðu á viðkomandi stofnun og það vægi sem nauðsynlegt er til að leiða til lykta ágreiningsmál og að gæta réttar sjúklings þegar um slíkt er að ræða. Við vitum að mál sem varða réttarstöðu eða það þegar einstaklingur telur að á sér sé brotið eru einhver viðkvæmustu mál að takast á við. Það þekkjum við öll.

Ég er með blaðaúrklippu þar sem fjallað er um gagnrýni sem hefur komið fram hjá forseta Hæstaréttar á læknaráð. Hann telur að það komi til greina að læknaráð verði ekki umsagnaraðili fyrir dómstólum með vísun til þess að læknaráð sé að gæta hagsmuna stofnunar og að í þessu máli sé jafnvel verið að fjalla um hagsmuni annarra aðila. Það kom fram í máli framsögumanns að landlæknisembættið hefur einmitt þetta tvískipta hlutverk sem er svo vandasamt. Það ætti einmitt að vera mjög sanngjörn krafa að í umfjöllun um þessa þætti komi inn í umfjöllun málanna umboðsmaður eða sterkur tengiliður sem er til þess fær að fjalla um réttindamál.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu en hún hefur verið mjög vel skýrð af hálfu frsm. Ég tek undir að það er mikilvægt að þegar málið fer til nefndar og til umfjöllunar þar fylgi jafnframt sú tillaga sem vísað var hér til sem kom fram frá Kvennalista þannig að þau áhersluatriði, sem þar eru og er ekki að finna í þessari tillögu, geti þá komið jafnframt til skoðunar ef þetta mál fær umfjöllun og verður e.t.v. ályktunarhæft frá þingnefnd.