Mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:40:33 (166)

1995-10-10 15:40:33# 120. lþ. 6.9 fundur 31. mál: #A mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja. Tillagan er á þskj. 31. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að mótmæla harðlega tilraunum Frakka og Kínverja með kjarnavopn að undanförnu. Sérstaklega mótmælir Alþingi endurteknum tilraunasprengingum Frakka í Kyrrahafi. Alþingi hvetur franska þjóðþingið og frönsku ríkisstjórnina til að hætta við frekari kjarnorkutilraunir í óþökk svo til allrar heimsbyggðarinnar og sérstakri óþökk þjóða við Kyrrahaf.

Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórninni að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir aðgerðum sem þrýsti á frönsk og kínversk stjórnvöld að breyta um stefnu og hætta við frekari kjarnorkutilraunir.``

Herra forseti. Ekki er ástæða til að rökstyðja þessa tillögu með mörgum orðum. Ég hygg að efni hennar þyki svo sjálfsagt hér um slóðir að við hljótum að vera samferða þeim þjóðum og þeim fjölmörgu þjóðþingum sem hafa mótmælt kröftuglega að undanförnu kjarnorkutilraunum Kínverja og Frakka. Þessar tilraunir hafa vakið mótmælaöldu sem hefur farið um nánast allan heiminn og það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fréttum að undanförnu.

Tillagan beinist sérstaklega að Frökkum að því leyti til að þeirra framganga í þessu máli er að mörgu leyti enn ámælisverðari en Kínverja. Það stafar ekki síst af því að Frakkar framkvæma tilraunir sínar fjarri eigin landi í mikilli óþökk þeirra þjóða sem búa í viðkomandi heimshluta, þ.e. þjóðanna í og í kringum Kyrrahafið. Þetta ber einnig upp á tíma þegar vaxandi andstaða er við kjarnorkutilraunir og kjarnorkuumsvif nánast af hvaða tagi sem er og þess gætir víða um heim. Þegar litið er til þess hvernig staða þessara mála er á alþjóðavettvangi er þessi tímasetning kjarnorkutilraunanna í raun og veru með öllu óskiljanleg og ber þar margt til. Í fyrsta lagi má nefna að nú hefur náðst samkomulag um framlengingu samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, MPT-samningsins svonefnda, og þar hafa áralangar samningaviðræður um framlengingu samningsins sem ella hefði runnið út nú á þessu ári eða hinu næsta borið þann árangur að áfram verður í gildi bann við frekari útbreiðslu efnavopna.

Það liggur í hlutarins eðli að þegar önnur ríki en kjarnorkuveldin semja um slíkar takmarkanir og undirgangast þær leggur það kjarnorkuveldunum sjálfum enn ríkari siðferðisskyldur á herðar að brjóta ekki á bág við almenningsálitið í heiminum með framgöngu sinni á þessu sviði.

Í öðru lagi og enn furðulegri er framganga Frakka og Kínverja í þessu máli í ljósi þess að nú hafa viðræður í Genf um tilraunabann, algert tilraunabann skilað þeirri niðurstöðu að flestöll meiri háttar ríki hafa skuldbundið sig til að undirrita samning um varanlegt bann við tilraunum með kjarnorkuvopn á árinu 1996. Í viðræðum um svonefndan CTBT-samning hefur þessi árangur náðst. Þess vegna er með öllu óskiljanlegt í raun og veru hvað kjarnorkuveldin, og þá ekki síst Frakkar sem eru að taka þessar tilraunir upp á nýjan leik, ætla sér að vinna með því að framkvæma þessar tilraunir í ljósi þess að þeir hafa undirgengist að skrifa undir samning um varanlegt bann við tilraunum með kjarnorkuvopn þegar á næsta ári.

Ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé að staldra aðeins betur við framkomu Frakka í garð þeirra þjóða sem búa við Kyrrahafið. Ég er ekki viss um að öllum sé ljóst hversu freklegt brot á stefnu stjórnvalda á þeim slóðum framganga Frakka er. Það kemur bæði til af því að þjóðirnar við Kyrrahaf hafa um alllangt skeið verið bundnar af samningi sem þær hafa gert sín í millum og verið að afla viðurkenningar á alþjóðavettvangi um að Suður-Kyrrahafið sé kjarnorkuvopnalaust svæði. Þetta er samningur kenndur við Rarotonga og er frá 9. áratugnum og er í fullu gildi hvað viðhorf stjórnvalda á þessum slóðum snertir. Auðvitað er þessi framkoma Frakka freklegt brot á anda og ákvæðum þess samnings þó það liggi að vísu fyrir að þeir sem slíkir hafi ekki undirritað hann eða viðurkennt að hegða sér samkvæmt honum.

Þá má einnig nefna að margar þjóðir við Kyrrahaf hafa sjálfkrafa og einhliða lýst yfir kjarnorkuvopnaleysi og ber þar hæst Nýja-Sjáland sem með sérstökum lögum frá árinu 1987 lýsti allt nýsjálenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust. Þau lög eru sömuleiðis í fullu gildi og þessi framganga Frakka freklegt brot á anda þeirra laga.

Það mætti einnig minna á þá tímasetningu sem þetta fellur saman við, svo sem eins og 50 ára afmæli þess að kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki, hörmungaratburður sem hefur nýlega verið rifjaður upp um alla heimsbyggðina og liggur í hlutarins eðli að reiði manna í garð Frakka vegna þessarar framgöngu er síst minni af þeim sökum. Það fer í raun og veru engan veginn saman við þá fullyrðingu Frakka sjálfra að þessum tilraunum fylgi engin hætta og þær séu með öllu skaðlausar umhverfinu að þeir skuli eftir sem áður velja að framkvæma þær í fjarlægri heimsálfu en ekki á sínum heimaslóðum þar sem þeir ættu þá við sig sjálfir ef eitthvað færi úrskeiðis.

Ég hef, herra forseti, aflað m.a. gagna frá Nýja-Sjálandi og samtökum eyþjóða við Kyrrahaf í þessu máli sem ég hef beðið skrifstofu Alþingis að fjölfalda og dreifa á borð þingmanna. Það er því miður allt á erlendum tungumálum en vonandi er þingmönnum einhver akkur í þeim upplýsingum. Þar koma m.a. fram mótmæli nýsjálenska þingsins og nýsjálensku ríkisstjórnarinnar við tilraunasprengingum bæði Frakka og Kínverja og þar eru á ferðinni bókuð mótmæli samtaka Kyrrahafsríkja við þessari framgöngu.

Að lokum, herra forseti, er það svo að þessa tillögu ber ekki að skoða sem gagnrýni á framgöngu íslenskra stjórnvalda á nokkurn hátt í þessu máli, heldur þvert á móti sem stuðning við þá framgöngu. Utanrrh. hefur fyrir hönd íslenskrar ríkisstjórnar og íslenskra stjórnvalda í tvígang eða þrígang mótmælt þessum tilraunum, í fyrsta skipti þegar Kínverjar sprengdu kjarnorkusprengju 17. ágúst, þá sendi utanrrn. fréttatilkynningu þar sem því var mótmælt. Í öðru lagi þegar Frakkar sprengdu í fyrra sinn á nýjan leik í Polynesíu eða Kyrrahafinu og því var mótmælt, samanber fréttatilkynningu nr. 69 frá 6. sept., og að síðustu þegar Frakkar sprengdu nú í annað sinn og miklu mun öflugri sprengingu í byrjun október, þ.e. nú fyrir nokkru síðan. Þá var í þriðja sinn send fréttatilkynning frá utanrrn. þar sem þessum tilraunasprengingum var mótmælt og ítrekað að afstaða íslenskra stjórnvalda væri hin sama og annarra á Norðurlöndum, að við værum þessum tilraunum algerlega andvíg og við hvettum Frakka og Kínverja til að hætta við þær. Eftir stendur eftir sem áður að fjölmörg þing hafa í eigin nafni mótmælt með ýmsum hætti þessum sprengingum og ég tel fulla ástæðu til þess að Alþingi Íslendinga geri um það sérstaka samþykkt og sérstaka ályktun og feli um leið ríkisstjórninni að beita sér áfram á alþjóðavettvangi gegn þessari framgöngu Frakka og Kínverja.

Ég tel einnig að það sé þá rétt að mótmæli frá Alþingi Íslendinga séu send franska þjóðþinginu sérstaklega því að það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að ábyrgð þess er einnig mikil í þessu sambandi. Og þannig mundi það væntanlega styrkja og undirstrika andstöðu Íslendinga við þessi áform að bæði ríkisstjórn og Alþingi væru sameiginlega andvíg þeim og hefðu um það ályktað.

Ég fagna svo þeirri samstöðu sem náðst hefur um flutning þessarar tillögu, en meðflm. ásamt mér eru þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstfl. sem því miður er þarna ekki í hópnum, en ég vona að það þurfi ekki að þýða að ekki geti eftir sem áður tekist breið pólitísk samstaða um að mótmæla þessum kjarnorkutilraunum og gef mér í reynd að svo hljóti að vera því að ég get ómögulega komið auga á nokkra efnisástæðu, herra forseti, fyrir því að svo sé ekki, þ.e. að um það hljóti ekki að verða alger samstaða á Alþingi Íslendinga að við séum sem vopnlaus smáþjóð og andvíg öllum kjarnorkuumsvifum gersamlega mótfallin þessum tilraunum og tökum þar með afstöðu ásamt þá hina sömu og flestar þjóðir hafa í reynd tekið að hvetja viðkomandi aðila, viðkomandi þjóðir eindregið til þess að hætta við þessi áform.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.