Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 16:51:02 (176)

1995-10-10 16:51:02# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er við hæfi að málefni geðfatlaðra og staða geðverndarmála komi til umræðu á Alþingi á alþjóðadegi geðheilbrigðis. Þó að þessi mál séu mjög brýn og vissulega í ólestri eftir lokun geðheilbrigðisdeilda í sumar virðist helst verið að gagnrýna að ekki sé nægilegt fjármagn veitt til þessa málaflokks sem ég get vissulega tekið undir. Við veitum hlutfallslega mun minna fé til þessa málaflokks en t.d. er gert annars staðar á Norðurlöndum.

Ég vil vekja athygli á því að í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 kemur fram að einstaklingar sem þjást af geðkvillum eða eiga við tilfinningaleg vandamál að stríða séu jafnbornir til þeirrar virðingar og réttinda sem eru undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.

Því er stundum haldið fram að á Íslandi sé algengara en í nágrannalöndunum að börn og fullorðnir þjáist af geðrænum vandkvæðum. Mér vitanlega eru ekki til rannsóknir því til stuðnings. Tíðnin hér virðist vera svipuð og í nágrannalöndunum, þ.e. að um 20% íbúafjöldans eiga við einhver geðræn vandkvæði að stríða og það alvarleg að meðferðar er þörf enda þótt alvarlegir geðsjúkdómar þjái mun færri sem betur fer. Með bættum geðlyfjum og framförum í geðrænni meðferð hefur sem betur fer tekist að fækka fólki á sjúkrahúsum en um leið er meiri þörf á stuðningi á göngudeildum og á stuðningi í atvinnulífinu og hjá fjölskyldum þessa fólks. Þau 15--20% barna og fullorðinna, sem eiga í tilfinnanlegum vandkvæðum, þurfa að fá góða aðhlynningu til þess að ástand þeirra lagist. Því miður búa of mörg börn hér við erfiðar uppeldisaðstæður og því er mjög mikilvægt að til komi auknar fjárveitingar, ekki síst til barna- og unglingageðdeildarinnar sem þarf að koma á sérhæfðri meðferð m.a. fyrir börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi, andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég er alveg rétt að ljúka máli mínu, en ég vil að lokum geta þess að hið óhóflega vinnuálag sem hér viðgengst á fjölskyldum eykur tíðni þessa vandamáls, svo og atvinnuleysi. Þess vegna er mjög mikilvægt að dreifa atvinnunni á alla því að það eru öfgarnar sem eru slæmar og það þarf að auka fé til þessa málaflokks.