Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 16:56:35 (178)

1995-10-10 16:56:35# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. alþm. fyrir að taka þetta mál upp hér. Það hefur verið farið yfir það ástand sem ríkir á sjúkrahúsum landsins þar sem flatur niðurskurður hefur bitnað illa á þjónustu við geðsjúka. En það sem mig langaði, virðulegi forseti, til að vekja athygli á við umræðuna er staða þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða og eru ekki á hjúkrunarstofnunum og þeir sem þurfa á sálfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa að halda þar sem ekki er um neina þátttöku tryggingakerfisins í þeim kostnaði sem sjúklingar þurfa að bera. Svo virðist sem sjúkdómar þessa fólks séu ekki viðurkenndir sem slíkir.

Áþreifanlegt dæmi um þetta eru börn eða unglingar sem beitt hafa verið ofbeldi hvers konar og þurfa af þeim sökum að leita aðstoðar sálfræðings um lengri eða skemmri tíma. Þau fá litla eða enga endurgreiðslu frá Tryggingastofnun ef aðstoðin er utan þjónustu sjúkrahúsa eða göngudeilda. Foreldrar þessara barna sem oft og tíðum eru bundin heima við umönnun og eftirlit með sjúklingunum eiga ekki rétt á umönnunarbótum vegna þessa og þó reynir e.t.v. ekkert síður á möguleika foreldra til umönnunar barns sem á við sálræn vandamál að stríða en ef um líkamlegan, sýnilegan sjúkdóm er að ræða. Ofan á þetta allt saman er ætlun ríkisstjórnarinnar að fresta greiðslu dæmdra miskabóta til þolenda hvers konar ofbeldis, bóta, sem oftar en ekki þarf að nýta til greiðslu fyrir aðstoð vegna afleiðinga ofbeldis. Ég vil því skora á hæstv. heilbrrh. að beita sér fyrir því að þolendur ofbeldis og aðrir þeir einstaklingar sem eiga við langvarandi geðræn eða sálræn vandamál að stríða fái eðlilegar greiðslur frá Tryggingastofnun og foreldrar þeirra barna og unglinga sem eiga við sömu vandamál að stríða eigi möguleika á umönnunarbótum sem auðvelda þeim að veita börnum sínum þá umönnun og umhugsun sem til þarf.