Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 16:58:44 (179)

1995-10-10 16:58:44# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og aðrir vil ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að hafa tekið upp þetta mál hér á þessum degi. Ég verð hins vegar að segja, herra forseti, að mér finnst aðfinnsluvert að þegar hæstv. ráðherra kemur og heldur sína ræðu hagar hún ræðunni með þeim hætti að henni gefst ekki tóm til að svara þeim mikilvægu spurningum sem þingmenn hafa spurt hæstv. ráðherra. Sérstaklega á þessum degi og ekki síst út frá ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur er það brýnt að við náum að ræða við ráðherrann hvort hann ætlar sér að skera enn frekar niður þjónustu við barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur kom fram að staðan í dag var að öllu leyti Alþfl. að kenna. Gott og vel, herra forseti. Ég vil ekki skorast undan þeirri ábyrgð. Við eigum sök á því eins og aðrir sem sátu í síðustu ríkisstjórn að ekki var betur gert í þessum málum en raun ber vitni í dag. Það þýðir hins vegar ekki fyrir hv. fulltrúa Framsfl. að koma hingað og ásaka Alþfl. um þennan niðurskurð þegar fyrir liggur að samkvæmt fjárlagafrv. á enn frekar að þrengja að. Ekki er hægt að lesa annað út úr fjárlagafrv. en það. Um það var spurningin sem hv. þm. varpaði fram til hæstv. ráðherra en ráðherrann hagaði ræðu sinni þannig að henni gafst ekki tóm til að svara henni. Það er nauðsynlegt að það komi fram hvað ráðherrann er að hugsa í þessum efnum.

Herra forseti. Framsfl. háði kosningabaráttu undir eftirfarandi kjörorði: Fólk í fyrirrúmi. Er það að hafa fólk í fyrirrúmi að ætla núna að þrengja enn frekar að barna- og unglingageðdeild Landsspítalans sem að fjölmargir þingmenn hafa komið inn á í þessari umræðu?

Herra forseti. Ráðherrann sagði að mikil þörf væri á úrbótum í málefnum þessarar mikilvægu deildar. Eru það einu úrbæturnar sem að hún sér að ætla að skera enn frekar niður fjármagn til deildarinnar? Er það þannig sem okkur birtist, herra forseti, hvernig á að efna kjörorðið: Fólk í fyrirrúmi? Það er alveg ljóst að ungt fólk og börn sem eiga við geðræna erfiðleika að stríða eru ekki í þessu fyrirrúmi samkvæmt fjármálafrumvarpinu.