Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 17:03:05 (181)

1995-10-10 17:03:05# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem að hafa tekið þátt í þessari umræðu í dag. Það hefur komið fram hjá hæstv. heilbrrh. Ingibjörgu Pálmadóttur, að hún tók áskorun alþjóðaheilbrigisstofnunarinnar og undirritaði yfirlýsingu um að dagurinn í dag, 10. október, yrði alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur og það er vel. En nú langar mig til að skora á hana að leysa strax úr þeirri brýnu neyð sem ríkir í geðheilbrigðismálum hér á landi og ekki síst í málefnum barna og unglinga sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Ég efast ekki um það að hv. þm. hér taka undir það og ég vona að hún taki jafn vel í þá áskorun og hina.

Hæstv. ráðherra gafst ekki kostur á að svara nema fyrstu spurningu minni en ég vona nú að það verði leyst úr því á eftir. Í svari hennar kemur fram að það verður ekki viðbótarfjármagn til geðdeildarinnar en það á samt að auka göngudeildarþjónustuna. Ef það kemur ekki meira fé til þessa málaflokks og þessarar deildar leyfi ég mér að efast um að um aukna þjónustu verði að ræða. Aftur á móti eru nefndir og ráð og úttektir í gangi og það er gott og nauðsynlegt en þessi mál þola enga bið. Það er ágætt að skrifa undir markmið og yfirlýsingar en það er ekki nóg, það verða fylgja athafnir í kjölfarið.

Hæstv. heilbrrh. Í lok umræðunnar geri ég orð prófessors Tómasar Helgasonar í Morgunblaðinu í dag að mínum: Geðvernd framtíðar er að veita þessu fólki góða samfellda þjónustu núna.