Fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 13:40:56 (184)

1995-10-11 13:40:56# 120. lþ. 8.1 fundur 4. mál: #A fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir fsp. til hæstv. heilbrrh. um málefni Fæðingarheimilis Reykjavíkur og sængurkvenna hér á höfuðborgarsvæðinu, reyndar á öllu landinu. Þann 9. sept. sl. ályktaði borgarráð Reykjavíkur um málefni Fæðingarheimilisins og skoraði á þingmenn Reykjavíkur og heilbrrh. að tryggja fé til reksturs Fæðingarheimilisins til að unnt sé að reka þar heimili sem sé sá valkostur fyrir fæðandi konur sem Fæðingarheimili Reykjavíkur er ætlað að vera.

Þann 22. mars 1994 var undirritaður leigusamningur milli borgarstjórans í Reykjavík og stjórnarnefndar Ríkisspítalanna um rekstur fæðingarheimilis í fasteignum Reykjavíkurborgar. Ekki er greidd leiga fyrir umræddar fasteignir.

Nú um nokkurt skeið hafa Ríkisspítalarnir ekki rekið Fæðingarheimilið þar sem því hefur verið lokað. Reyndar virðist ástandið í málefnum sængurkvenna allslæmt. Í sumar var ekki aðeins Fæðingarheimili Reykjavíkur lokað heldur einnig dagdeild og hluta meðgöngudeildar fæðingardeildarinnar á Landspítalanum. Til stóð að opna þessar deildir aftur um áramót en nú hafa heyrst raddir um að svo verði ekki, a.m.k. ekki hvað varðar Fæðingarheimilið. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

,,Hvenær er áætlað að rekstur Fæðingarheimilis Reykjavíkur hefjist að nýju eftir lokun og hvaða áform eru um rekstur heimilisins í framtíðinni?``

Þau tímabil sem Fæðingarheimilið hefur verið lokað hafa konur ekki átt neitt val um það á hvernig stofnunum þær fæða börn sín. Í því tilviki vil ég nefna að um 90% fæðinga eru eðlilegar og stór hluti kvenna sem fæða eðlilega vilja eiga val. Í framhaldi af því spyr ég hæstv. ráðherra:

,,Telur ráðherra eðlilegt að allar konur á höfuðborgarsvæðinu fæði börn sín á hátæknisjúkrahúsi eins og verið hefur undanfarna mánuði?``

Síðan vegna umræðna um mikil þrengsli á fæðingardeildinni og ekki síst á þeim tíma sem deildir eru lokaðar eins og nú, spyr ég hæstv. heilbrrh. eftirfarandi spurninga:

,,Hvað getur fæðingardeild Landspítalans sinnt mörgum fæðingum á ári?

Hver hefur þróunin verið hvað varðar fjölda fæðinga á fæðingardeild Landspítalans undanfarin ár?

Hversu margar sængurkonur hafa þurft að liggja á göngum fæðingardeildar Landspítalans frá því að Fæðingarheimilinu var lokað?``

Nú í tæpt ár hefur Landspítalinn boðið barnshafandi konum upp á nýja þjónustu sem kallast ,,meðganga, fæðing, sængurlega``, skammstafað MFS, þar sem konum sem fæða eðlilega er boðið upp á sérstakt eftirlit á meðgöngu auk fæðingar og sængurlegu við heimilislegar aðstæður. Þetta er þjónusta sem væri tilvalin á Fæðingarheimilinu en ætti síður heima í dýru rými hátæknisjúkrahúss. Því spyr ég:

,,Hversu margar konur hafa nýtt sér hina nýju MFS-þjónustu fæðingardeildar Landspítalans og telur ráðherra að slík þjónusta eigi heima á hátæknisjúkrahúsi?``