Geymsla forngripa á byggðasöfnum

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:17:22 (198)

1995-10-11 14:17:22# 120. lþ. 8.6 fundur 28. mál: #A geymsla forngripa á byggðasöfnum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. greinargóð svör og les það út úr svörum hans að hann telji þetta varða uppbyggingu og styrkingu minja- og byggðasafna. Það er einkum þrennt sem ég tel mikilvægt varðandi uppbyggingu minjasafna. Í fyrsta lagi hafa þessi söfn ótvírætt menningargildi og í öðru lagi vil ég nefna gildi fyrir ferðaþjónustu. Eins og fram hefur komið er verið að taka í notkun glæsilegt safnahús á Egilsstöðum og hvað þær minjar er fundust í Skriðdal varðar á það að vera svo búið að geta varðveitt slíka hluti.

Í lögunum er kveðið á um úttekt þjóðminjaráðs á safnahúsum þannig að væntanlega yrðu gerðar þær kröfur og þau skilyrði uppfyllt sem þjóðminjaráð setur varðandi húsnæði. Einnig eru gerðar faglegar kröfur til minjavarða. Þessum þáttum hefur auðvitað verið misjafnlega fyrir komið og ég tel það ákaflega mikilvægt að sem mest af þessum munum og minjum sé varðveitt sem næst uppruna sínum. Og með tilvísan til þess get ég enn nefnt dæmi um einkennilega ráðstöfun. A.m.k. er það svo í augum heimafólks á Seyðisfirði. Þegar Póstur og sími flutti í nýtt hús á Seyðisfirði gaf stofnunin gamla húsið eða hið svonefnda Wathneshús til tækniminjasafns á Austurlandi. Í þessu húsi var fyrsta símstöðin á landinu og þar kom sæstrengurinn frá Evrópu í land fyrst á Íslandi. En Póstur og sími valdi síðan að rífa út allar innréttingar, tæki og tækni sem tengdust upphafi símans hér á landi úr upprunalega húsinu og flytja það til Hafnarfjarðar í hús sem ekki er í neinu samhengi við sögu símvæðingar hér á landi og ætlar að byggja þar upp símaminjasafn.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til hæstv. menntmrh. og tel mikilvægt að þessi sjónarmið hafi komið hér fram á hinu háa Alþingi.