Tilraunasveitarfélög

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:23:27 (201)

1995-10-11 14:23:27# 120. lþ. 8.7 fundur 39. mál: #A tilraunasveitarfélög# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Lögin um reynslusveitarfélög eru nr. 82/1994. Samkvæmt heimild í þeim valdi þáv. félmrh. í lok júní á síðasta ári á grundvelli umsókna 12 sveitarfélög til að verða reynslusveitarfélög, þ.e. Reykjanesbæ, Hafnarfjörð, Garðabæ, Reykjavík, Borgarbyggð, Snæfellsbæ, Dalabyggð, Vesturbyggð, Akureyri, Neskaupstað, Hornafjarðarbæ og Vestmannaeyjar.

Samkvæmt lögunum um reynslusveitarfélög er félmrh. heimilt að að fela reynslusveitarfélagi að annast þjónustu við fatlaða, en hliðstæð heimild var reyndar fyrir í lögum um málefni fatlaðra. Það sem liggur að baki þessari heimild er sú trú að það geti haft bæði hagræðingu og bætta þjónustu í för með sér að ábyrgð á málaflokknum færist yfir á eina hendi, þ.e. til sveitarfélaga, í stað þess að bæði ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á þjónustu við fatlaða eins og nú er.

Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda, þá sóttu fjögur reynslusveitarfélög um þetta verkefni, Reykjavík, Vesturbyggð, Akureyri og Vestmannaeyjar, en áður en reynslusveitarfélag getur yfirtekið þjónutsu við fatlaða þarf það að útfæra á hvern hátt það muni veita þjónustuna og hvernig skipulag þjónustunnar verður samþætt stjórnkerfi þess. Reglur hvers reynslusveitarfélags um þetta munu verða í formi sérstakrar samþykktar sveitarfélagsins sem þarf að hljóta staðfestingu félmrh. og birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Að undanförnu hafa sveitarfélögin unnið að útfærslu hugmynda sinna um yfirtöku málaflokksins. Jafnframt hafa átt sér stað viðræður milli þeirra og félmrn. um fjármögnun. Hefur félmrn. lagt fram drög að samningum sem sveitarfélögin hafa til skoðunar og sum skilað inn svörum. Það er gert ráð fyrir því að fljótlega muni skýrast hvort samkomulag muni nást milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun. Ég vona svo sannarlega að samkomlag náist og ég vænti þess að þetta mál sé í eðlilegum farvegi. Til að hraða verkefninu enn frekar hef ég ákveðið að bæta vinnukrafti í reynslusveitarfélagaverkefnið og fékk í morgun mjög hæfan og duglegan mann til þess að taka að sér þar tímabundið starf.