Tilraunasveitarfélög

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:29:37 (205)

1995-10-11 14:29:37# 120. lþ. 8.7 fundur 39. mál: #A tilraunasveitarfélög# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á málaflokknum reynslusveitarfélög sem var mjög til umræðu við sameiningu sveitarfélaga á sl. ári. Mjög mörg merkileg verkefni munu fara til sveitarfélaganna og ég hef fylgst með þessu verkefni í gegnum formann nefndarinnar, Gunnar Hilmarsson. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá honum og nefndinni, þá verður staðið við að sveitarfélögin fái þau verkefni sem þeim var lofað og voru forsendan fyrir því að mörg sveitarfélög fóru út í sameiningu. Og eftir þeim upplýsingum sem ég hef frá hæstv. félmrh. þá verður einnig af hans hálfu staðið við allt það sem þar hefur verið sagt þannig að ég hef fyllstu ástæðu til þess að ætla það að þetta mál sem önnur verði efnd á þann hátt sem lofað var af fyrrv. félmrh. sem beitti sér hart í samningamálum á sínum tíma og eins af þeim sem tekur við þeim málaflokki í dag.