Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:36:21 (208)

1995-10-11 14:36:21# 120. lþ. 8.8 fundur 40. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Hæstv. forseti. Það má segja að þessi fsp. mín sé tengd þeirri fyrstu mjög náið en hún varðar áform hæstv. félmrh. um endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra. Ég get upplýst það, og ég reikna með að ráðherra sé kunnugt um að það eru ákvæði í núgildandi lögum um málefni fatlaðra að þau skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku. En lögin tóku gildi 2. júní 1992. Í þessu sama ákvæði er sagt að lögin skuli endurskoðuð með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40 frá 1991. Nú þegar hafinn er undirbúningur að endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og ríkisstjórnin hefur boðað að frv. um breytt lög verði lagt fram á þessu Alþingi vil ég spyrja hæst. félmrh. hvort einhver undirbúningur er hafinn á endurskoðun laga um málefni fatlaðra, ekki síst vegna þess að í títtnefndu ákvæði laga um málefni fatlaðra segir að endurskoðunin skuli m.a. miða að því að auka ábyrgð sveitarfélaga á málefnum fatlaðra. Því er það vandséð að hægt sé að endurskoða önnur lögin án þess að vinna að endurskoðun þeirra síðarnefndu samhliða.