Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:42:06 (211)

1995-10-11 14:42:06# 120. lþ. 8.8 fundur 40. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., MF
[prenta uppsett í dálka]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér fannst koma fram áðan í máli hæstv. ráðherra að hann talaði í öðru orðinu um að bíða eftir þeirri reynslu sem fengist af reynslusveitarfélögunum í heilt ár og í hinu að vera í startholunum með endurskoðun laganna um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðra. Ég vil því spyrja hvort það væri ekki eðlilegt að fresta gildistöku þessa endurskoðunarákvæðis um að minnsta kosti eitt ár til þess að geta byggt á þeirri reynslu sem fæst og vera ekki með endurskoðun samhliða og þurfa síðan jafnvel að breyta lögunum aftur eftir að reynslan liggur fyrir og reynslusveitarfélögin hafa starfað í eitt ár. Það þarf minnsta kosti að gefa þeim eitt ár til þess að marktæk reynsla fáist, jafnvel lengri tíma.