Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 10:48:43 (216)

1995-10-12 10:48:43# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á vorþinginu svaraði ég fyrirspurn frá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur. Einn liður fyrirspurnarinnar hljóðaði þannig hvort ráðherra hygðist fylgja eftir tillögum landsnefndar um mál fjölskyldunnar um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja fjölskylduna.

Ég svaraði þessu fimmtudaginn 1. júní og sagði þá, með leyfi forseta: ,,Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort tillagan verður flutt óbreytt. Ég mun fara nákvæmlega yfir hana og hafa samráð við ýmsa aðila og m.a. nýtt jafnréttisráð. Það kann að vera að eitthvað vanti og það kann líka að vera að einhverju sé ofaukið. En ég hef áhuga á því að flytja mál af þessu tagi og þá í því skyni að það verði ályktun Alþingis, ekki bara að leggja það fram rétt fyrir kosningar þegar vonlaust er að það nái afgreiðslu.

Ég get upplýst að mér er sérstök ánægja að flytja mál af þessu tagi því að Framsfl. hefur fortíð í málefnum fjölskyldunnar. Fyrsta tillagan um málefni fjölskyldunnar, sem flutt var á Alþingi, var flutt árið 1980. Það var tillaga um fjölskylduvernd og flm. voru þáv. hv. þm. Haraldur Ólafsson og Alexander Stefánsson. Síðan fluttu þeir ásamt hv. þm. Níelsi Árna Lund á þinginu 1981--1982 tillögu um stefnumörkun í fjölskyldumálum. Hvorug þessi tillaga náði afgreiðslu. Þessir brautryðjendur hafa kannski verið á undan sinni samtíð og vonandi tekst mér að framkvæma ætlunarverk þeirra þó það sé hálfum öðrum áratug síðar.''

Ég setti síðan í gang vinnu við þetta verkefni og hún er í góðum gangi. Því kom mér það mjög á óvart að sjá þskj. 16 á borði mínu hér um daginn og er tillagan, stjórnartillaga sem lögð var fram rétt fyrir kosningar af þáv. hæstv. félmrh. Rannveigu Guðmundsdóttur, orðin að þingmannamáli. Ég tel að það sé einstakt í viðskilnaði ráðherra við embætti sitt að taka með sér gögn úr ráðuneytinu og unnin fyrir ráðuneytið og leggja þau fram í eigin nafni vitandi það að málið yrði flutt af eftirmanni í ráðherraembætti. Ekki nóg með það. Í félmrn. var til ræða, samin af einum ágætum starfsmanni ráðuneytisins, og var það framsöguræða sem aldrei var flutt með þessari stjórnartillögu. Nú er hluti af henni kominn í Alþingistíðindin orðréttur. Að vísu með nokkrum innskotum þannig að ekki kem ég til með að flytja þá ræðu. Það er óþarfi. Ég játa það alveg hreinskilnislega að mér finnst og fannst þessi tillaga, strax og ég las hana þegar hún var lögð fram, ekki nógu metnaðarfull. Í henni er ofmikið um marklausar klisjur og væmið snakk. Það er engin heildarstefna í þessari tillögu. Það eru engar áþreifanlegar aðgerðir. Og það eru áþreifanlegar aðgerðir sem þarf til ef móta á fjölskyldustefnu að einhverju gagni. Það verður að taka á öllum þáttum. Fjölskyldan verður að hafa tekjur til að lifa mannsæmandi lífi. Fjölskyldan hefur ekki tekjur nema með því móti að atvinnulífið sé í sæmilega góðum gangi. Atvinnulífið verður ekki í góðum gangi nema hagvöxtur sé í þjóðfélaginu. Og hagvöxtur verður ekki í þjóðfélaginu ef menn t.d. reka ríkissjóð með stórfelldum halla. Fjölskyldan þarf húsnæði. Þess vegna þurfa húsnæðismál að vera í lagi. Fjölskyldan verður að búa við fjárhagslegt öryggi til þess að geta þrifist. Þess vegna er brýnt að taka á skuldum heimilanna. Fjölskyldan þarf að hafa öryggi. Bæði efnahagslegt öryggi og eins þurfa börnin að vera í öruggu umhverfi. Það er ákaflega mikilvægt að foreldrarnir geti farið að heiman til vinnu sinnar örugg með það að börnin fari sér ekki að voða. Það er afar mikilvægt að nægilegt framboð sé af leikskólum, það sé samfelldur skóladagur, einsetning skólanna og lengd viðvera. Fjölskyldan þarf að hafa festu í lífinu. Það er að vísu ekki allt á valdi ríkisins að skapa það, þetta er samvinnuverkefni margra aðila, sveitarstjórnir þurfa að koma að þessu. Hér í Reykjavíkurborg hefur á síðustu missirum verið unnið gott starf í þessa átt.

Heilbrigðismál þurfa að vera í lagi. Og nóg framboð af umönnunarstofnunum. Það þarf að huga að velferð fatlaðra. Það þarf að huga að jafnrétti. Einstaklingarnir verða að fá tækifæri til að ná sér á strik. Það þarf að ryðja hindrunum úr vegi fyrir jafnréttinu. Það þarf að gæta að umferðaröryggi. Fjölskyldan þarf að geta komið saman og átt samverustundir á heimilinu. Menn eiga ekki að þurfa að vera í endalausri spennu og þeytingi. Svona mætti lengi telja.

Ég vil reyna að taka af alvöru á þessum málum. Mér nægir ekki væmið kjaftæði á prenti. Ég tel líka að hjónabandið eða sambúðin sé eitt af þessum atriðum. Ég hygg að það sé mikilvægt fyrir börn að alast upp, ef skilyrði eru til, með báðum foreldrum. En það verður líka að haga því til þar sem svo er ekki, að börnin njóti sem bestra skilyrða. Það er mikilvægt að einstaklingarnir í fjölskyldunni skynji sig sjálfa sem hluta af heild í litlu samfélagi og leggi sig fram. Það er líka mikilvægt að fjölskyldurnar í landinu, hver einasti einstaklingur, skynji sig sem hluta af þjóðinni og vilji vinna henni.

Ef við viljum, herra forseti, reyna að vinna að markvissri fjölskyldustefnu, þá eigum við að reyna að uppræta rótleysi og firringu og allt annað sem leiðir af því. Ég hefði margt fleira að segja um fjölskyldustefnu, herra forseti, eða hvernig ég sé hana fyrir mér. En tíminn leyfir það ekki og því læt ég máli mínu lokið.