Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:03:53 (220)

1995-10-12 11:03:53# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. fémrh. hér áðan er ein furðulegasta ræða sem ég hef heyrt í minni tíð á hv. Alþingi. Mér fannst leggjast lítið fyrir hæstv. félmrh. Hann eyddi löngum tíma í máli sínu í að velta fyrir sér hver ætti frumburðarréttinn að þessu máli um fjölskyldustefnu. Það eru margir sem hafa komið að þessu máli, hæstv. ráðherra, bæði aðilar vinnumarkaðarins og félagasamtök og hafa lengi unnið að þessu. Mér finnst ekkert að því þó að fyrrv. félmrh. flytji þetta mál inn á þing. Hún flutti þetta hér sem ráðherra og fylgir því eftir nú hér sem óbreyttur þingmaður. Ég verð satt að segja að lýsa furðu minni á ummælum ráðherrans þegar hann talar um væmið kjaftæði á prenti sem er afrakstur stórs hóps fólks sem hefur komið að þessu máli. Ég hugsa að það hafi verið fulltrúar 30 félagasambanda og aðila vinnumarkaðarins sem komu að þessu máli. Síðan leyfir ráðherrann sér að telja upp hvað eigi að gera fyrir fjölskylduna. Ég spyr ráðherrann að því hvernig er þetta frv. fjárlaga, fyrsta frv. ráðherrans? Er það metnaðarfullt gagnvart fjölskyldunni eins og ráðherra ræddi um að fjölskyldustefna ætti að vera? Nei. Það er það ekki. Þetta er árás á fjölskylduna í landinu. Að leyfa sér að tala hér um velferð fatlaðra. Hvernig er gengið frá málefnum fatlaðra í kaflanum varðandi félmrn.? Ég verð að segja það að mér blöskrar málflutningur ráðherrans og hann ætti að snúa sér að því í því frv., sem hér liggur fyrir, að reyna að lagfæra þau atriði sem snúa að fjölskyldunni og eru bein árás og atlaga að fjölskyldunni í landinu. Mig furðar þetta og mér finnst lítið leggjast fyrir félmrh. í þessu máli.