Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:06:58 (222)

1995-10-12 11:06:58# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki saman að jafna að tala um einhverja tillögu sem var flutt fyrir 15 árum sem var einföld tillaga um að það skyldi móta fjölskyldustefnu eða þá tillögu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flytur sem er ítarleg og útfærð tillaga um hvernig staðið skuli að mótun fjölskyldustefnu. Það er allt annað. Vegna orða ráðherrans hér áðan varðandi frv. til fjárlaga þá mundi ég nú sem minnst tala um það nema að ráðherrann ætli sér að breyta því í þá átt að það skili sér til fjölskyldunnar.

Hann talaði áðan um að fjölskyldan ætti að hafa nægar samverustundir saman á heimili sínu þegar hann var að lýsa fjölskyldstefnu sinni. Það er alveg ljóst að það verður ábyggilega nægur tími til þess að hafa samverustundir á heimili sínu vegna þess að þetta frv. boðar ekkert nema atvinnuleysi þannig að fólk mun hafa nægar stundir til að vera saman á sínu heimili, það er alveg ljóst nema ráðherrann breyti þá um stefnu.