Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:08:53 (224)

1995-10-12 11:08:53# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því frumkvæði sem hv. 1. flm. tillögunnar sýnir með flutningi hennar svo snemma þannig að við getum haft tíma til þess að ræða þetta mikilvæga mál ítarlega og fjalla um það í nefnd svo við þurfum ekki að bíða hér í margar vikur eða mánuði eftir að hæstv. félmrh. flytji tillögur sínar. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að þingið taki sér góðan tíma til þess að fjalla um þetta mál og löngu orðið tímabært að hér sé mörkuð heildarstefna í málefnum fjölskyldunnar.

Þessi tillaga hefur vissulega átt sér töluvert langan aðdraganda og hefur verið unnið að henni um þó nokkurn tíma, a.m.k. tvö ár í félmrn. Ég held að það væri verðugt verkefni í kjölfar Árs fjölskyldunnar að því yrði fylgt eftir með því að Alþingi mundi á þessu þingi samþykkja mótun opinberrar fjölskyldustefnu. Það er alveg ljóst að við þurfum ekki síður á því að halda að móta hér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar eins og við mótum stefnu t.d. í vegamálum eða flugmálum. Það er alveg ljóst að heildarsýn hefur vantað í málefnum fjöskyldunnar og það er alveg ljóst að niðurskurður gegnum árin, sem beinst hefur að fjölskyldum í landinu, hefur oft verið mjög illa ígrundaður og bitnað mjög harkalega á fjölskyldum. Mér finnst einmitt að tillagan taki mjög vel á því máli vegna þess að inntak hennar er að ná fram heildarsýn varðandi fjölskylduna og einmitt að taka á því sem oft er í fjárlagagerðinni í gegnum tíðina, þ.e. að enginn er ábyrgur fyrir samræmingu eða stefnumótun og hvernig aðgerðir ríkisstjórna eða einstakra ráðuneyta koma niður á fjölskyldunni, t.d. í skattamálum, í skólamálum, í heilbrigðismálum, félagsmálum.

Við höfum um það dæmi mörg hver hvernig það hefur komið niður á fjölskyldunni að þessa heildarsýn hefur vantað. Það væri t.d. fróðlegt gagnvart frv. til fjárlaga, sem við erum að ræða, að fá fram nákvæma úttekt á því hvernig einstaka þættir í þessu fjárlagafrv. hafa áhrif á fjölskylduna og einstaka meðlimi hennar. Hæstv. ráðherra talaði áðan um svartsýni mína gagnvart fjárlagafrv. Það er ekki bara ég ein heldur er það heildarsamtök launafólks sem lýsa verulegum áhyggjum sínum af þessu frv. til fjárlaga gagnvart fjölskyldum í landinu.

Ég gerði það einu sinni þegar mér fannst ansi langt gengið þegar ég var í ríkisstjórn að taka saman áhrif sparnaðartillagna sem voru þá uppi á borði á einstaka þjóðfélagshópa. Ég tóku saman hvernig einstaka þættir hefðu áhrif á börnin, á námsmenn, á sjúklinga, á aldraða, á fatlaða, atvinnulausa, konur, landsbyggðina og afkomu fjölskyldunnar í heild. Þetta er plagg upp á 5--6 síður þar sem ég sýndi fram á hvað ríkisstjórnin væri að gera með sínum tillögum. Þar kom fram að þetta væri um hálfur milljaður sem beint kom niður á börnunum með alls konar aðgerðum sem þá voru á döfinni. Varðandi fjölskylduna í heild voru þetta um 2--3 milljarðar. Sem betur fer var töluvert mikið af þessu dregið til baka og það þarf að taka frv. til fjárlaga rækilega í gegn og sýna fram á hvaða áhrif þetta hefur á fjölskyldurnar í landinu. Ég er alveg viss um að það mun ekki koma út úr því sá sparnaður sem menn ætla sér eða ríkisstjórnin ætlar sér. Ég held að það sé alveg ljóst. Ef það er rétt sem ASÍ heldur fram að um eitt þúsund manns muni missa vinnu sína hjá hinu opinbera eru það 500--600 millj. bara í aukin útgjöld hjá Atvinnuleysistryggingasjóði einum og sér. Það er ekki reiknað með því í þessu frv. þannig að menn skyldu gæta að öllu hvað hér er verið að gera. Það er alveg ljóst þó að það heyrist í einstaka ráðherrum um að það þurfi að efla hér forvarnir hefur allt of lítið verið gert af því í gegnum árin að leggja áherslu á forvarnir sem er alveg ljóst að mun spara gífurlega bæði í heilbrigðis- og félagsmálum. Það kom fram í þessari bók um barnafjölskyldur, sem hér hefur verið vitnað í, að fjölskyldan sé eins konar afgangsstærð í þjóðfélaginu og réttur hennar sífellt fyrir borð borinn. Ég held að það sé alveg rétt sem hér kemur fram, virðulegi forseti.

Það er alveg ljóst þegar við skoðum bara hvernig heilbrigðismálin og félagsmálin spila saman að heilbrigðisþjónusta hér er miklu dýrari en hjá öðrum þjóðum hvort sem við berum okkur saman við Norðurlöndin eða önnur OECD-lönd og miklu minna er látið til félagsmála en í þessum löndum þannig að þarna munar verulegu. Við erum langt á eftir t.d. hvernig tekið hefur verið á barnaverndarmálum, slysavörnum og vímuefnavörnum, þar erum við langt á eftir og þurfum að taka okkur á í því efni.

Virðulegi forseti. Það kemur kannski ekki nægjanlega fram í þessari tillögu en mér finnst að það sé eitt ráðuneyti sem eigi að bera alfarið ábyrgð á þessum málaflokki og það eigi að vera félmrn. Á undanförnum árum hefur félmrn. í vaxandi mæli orðið ráðuneyti fjölskyldumála og mér finnst að það eigi að verða slíkt og heita ráðuneyti fjölskyldumála og fara með þennan málaflokk og hafa samræmingu og heildaryfirsýn um hvað er að gerast sem lýtur að fjölskyldunni.

Við sjáum alveg fyrir okkur að það hefur allt of lítið verið gert af því að skoða hvernig stjórnvaldsaðgerðir hafa áhrif á fjölskylduna. Við getum spurt okkur: Af hverju hafa hjónaskilnaðir aukist verulega að undanförnu? Af hverju þurfa 500--600 börn að ganga gegnum skilnað foreldra sinna á hverju ári? Af hverju hefur ofbeldi og vímuefnaneysla vaxið mjög hröðum skrefum í þjóðfélaginu á umliðnum árum? Af hverju hafa sjálfsvíg aukist mjög í þjóðfélaginu? Að þessu verðum við öll að spyrja okkur. Er það eitthvað sem við erum að gera á hv. Alþingi sem orsakar þetta? Herðum við svo að fjölskyldunni að það bitnar verulega á henni og börnunum? Ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum að spyrja okkur þessara spurninga. Ég held að sú veigamesta stefnmótun sem hér þarf að gera og bíður okkar þingmanna sé að móta stefnu í fjölskyldumálum. Síðan er það ráðherrann sem fer með þennan málaflokk sem er að agnúast út í það, herra forseti, að hér skuli vera komin inn á borð tillaga þannig að þingmenn geti nú farið loksins að fjalla um mótun fjölskyldustefnu. Þetta er alveg furðulegt, virðulegi forseti. Við þurfum að taka þetta líka út frá ábyrgð sveitarfélaganna. Þetta er ekki bara það sem snýr að ríkisvaldinu hvernig atlaga hefur verið gerð að fjölskyldunni. Ég held að við verðum bara að viðurkenna það á mörgum sviðum. Við þurfum líka að skoða ábyrgð sveitarfélaganna, félagsþjónustu sveitarfélaganna sem í mörgum tilvikum er ábótavant. Við getum ekki komið okkur saman í þessari stofnun og hjá sveitarfélögunum um að sameina sveitarfélögin þannig að þau geti veitt fjölskyldunum öfluga félagsþjónustu og ég held að það bitni mjög víða á félagsþjónustu víðs vegar um landið.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur átt frumkvæði að því að við getum nú fjallað um þetta mál og það er von mín að það megi verða til þess að þinginu ljúki ekki nema við höfum mótað skýra stefnu í fjölskyldumálum þar sem inntakið verður m.a. að það verði ábyrgð á þessum málaflokk í einu ráðuneyti. Ég nefni bara, virðulegi forseti, málefni fatlaðra. Þegar þau voru sundurtætt í mörgum ráðuneytum og enginn bar ábyrgð var mjög slæmt ástand í þessum málaflokki. Um leið og einn aðili varð ábyrgur eins og félmrn. í málefnum fatlaðra --- það er líka hægt að taka málefni barna --- þá breyttist þetta mjög mikið. Sama mun vera gagnvart fjölskyldunni þegar einn aðili verður ábyrgur fyrir þessu máli. Það er inntakið í þeirri fjölskyldustefnu sem ég skora á þingmenn að samþykkja.