Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:19:00 (225)

1995-10-12 11:19:00# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Innlegg hv. 13. þm. Reykv. í þessa umræðu er mjög mikilvægt. Ég vil gjarnan geta þess að í þessari þáltill. er fjölskylduráð hugsað einmitt á sama meiði og kom fram hjá þingmanninum. Að einn aðili hugi að málum innan fjölskyldunnar og gæti verið fyrsti vísir einmitt að því að eitt ráðuneyti bæri ábyrgð á málefnum fjölskyldunnar. Við hv. þm. höfum oft rætt það hversu mikilvægt það væri að við kæmum upp einu fjölskylduráðuneyti. Ég vil af því tilefni einnig nefna það vegna þess að stjórnsýslan er skipt að ég hef sjálf haft þá skoðun að í hverju sveitarfélagi ætti að vera eins konar fjölskyldustofnun, þjónustustofnun fjölskyldunnar sem sæi um og hefði yfirsýn yfir málefni fjölskyldunnar. Ég er sannfærð um það að bara heitið félagsmálastofnun hrekur fólk víða frá og afstýrir því að fólk leiti eftir eðlilegri þjónustu, samskiptum, leiðsögn hjá þeim aðilum sem starfa einmitt á félagsmálastofnunum og væru mjög mikilvægir starfsmenn slíkrar fjölskyldustofnunar sveitarfélaga.