Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:45:02 (233)

1995-10-12 11:45:02# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., BH
[prenta uppsett í dálka]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Tillagan sem hér er til umfjöllunar var undirbúin og endurunnin, eins og margoft hefur komið fram, í landsnefnd um Ár fjölskyldunnar. Eins og fram kom í máli hv. 1. flm., Rannveigar Guðmundsdóttur, var sú nefnd þverfagleg og þverpólitísk og hana skipuðu á þriðja tug manna sem komu víðs vegar að úr samfélaginu. Ég tók sæti í nefndinni snemma árs 1993 og starfaði með henni allt til loka. Það verður að segjast eins og er að í nefndinni var alger samstaða um þörfina á mótun opinberrar fjölskyldustefnu og um þær tillögur sem hér eru kynntar. Fulltrúar í nefndinni voru almennt sammála um það að án slíkrar stefnu væri á engan hátt tryggt að fjölskyldan gæti sinnt því hlutverki sem við ætlumst öll til af henni: að vera hornsteinn samfélagsins, vettvangur tilfinningatengsla og uppspretta lífsgilda, svo að sótt séu í smiðju þau orð sem um fjölskylduna hafa verið viðhöfð.

En við Íslendingar eigum enga opinbera fjölskyldustefnu. Við teljum okkur búa í velferðarþjóðfélagi. Íslendinga eiga hlutfallslega flest börn ef samanburður er gerður við Norðurlöndin, en við verjum um leið hlutfallslega minnstu fé til félags- og heilbrigðismála. Ekki aðeins það heldur höfum við Íslendingar aldrei átt neina heildstæða fjölskyldustefnu þrátt fyrir það að við tölum sífellt um fjölskylduna sem hornstein samfélagsins. Það er undarlegur hornsteinn. Nær væri að segja að fjölskyldan sé hornreka samfélagsins ef marka má þá athygli sem hún fær í stefnumótun. Viljum við þrátt fyrir breytta tíma enn í dag líta á fjölskylduna sem einkamál þeirra sem þar eru eða viljum við tryggja öryggi hennar og farsæld betur og búa til heildarstefnu um hana? Að sjálfsögðu viljum við taka síðari kostinn.

En vandamálið er ekki svo einfalt að það snúist einungis um vilja. Hér er um flókið mál að ræða sem krefst fjárfrekrar endurskipulagningar víðs vegar í stjórnkerfinu. Staðreyndin er sú að þjónustukerfi hins opinbera og stofnanir þess hafa verið skipulagðar miðað við tiltekin viðfangsefni eða afmarkaða hópa í þjóðfélaginu, svo sem sjúklinga, nemendur, fatlaða, aldraða og fíkniefnaneytendur, svo dæmi séu tekin. Einstök viðfangsefni heyra síðan undir mismunandi ráðuneyti eftir því hvers konar viðfang viðkomandi er talinn vera og í hverjum flokki vandamála fyrir sig er svo mótuð ákveðin stefna. Hins vegar vantar heildarstefnuna og það vantar heildartengingu málaflokkanna. Í stað þess að vandamálin séu leyst á heildstæðan hátt er hver að pukra með sitt viðfang óháð umhverfinu að öðru leyti. Verkaskipting ráðuneyta er óljós auk þess sem verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er óljós líka í málaflokkum er lúta að fjölskyldunni.

Það er ánægjulegt til þess að vita að hæstv. félmrh. sé að vinna að því að móta stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Á máli hans hér áðan heyrðist mér þó ekki að hann ætli sér að gera nokkrar þær breytingar á þeim málum sem máli skipta fyrir fjölskylduna sem slíka. Hann telur nauðsynlegt að huga að ýmsu eins og t.d. jafnrétti, hjónabandinu, umferðaröryggi og dagvistarmálum. Hann ætlar líka að uppræta ráðaleysi í þjóðfélaginu. Hann lýsir tillögum landsnefndar um mál fjölskyldunnar sem innantómum klisjum. Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt jafnmargar innantómar klisjur og þær sem komu fram í máli hæstv. félmrh. áðan. Hvar ætlar hæstv. ráðherra að finna snillinga til að móta slíka stefnu eins og hann hefur í huga? Landsnefndina skipuðu fjölmargir þeir færustu einstaklingar sem við eigum á sviði þessara mála og í öllum tilvikum var leitað faglegrar ráðgjafar. Það þekki ég. Ég ætla ekki að láta eftir mér að segja upphátt þau orð sem mér koma í hug við málflutning eins og þann sem hér hefur heyrst frá hæstv. félmrh.

Ég vil í lokin hvetja hæstv. ráðherra til að ergja sig ekki vegna þess að hv. þm. og fyrrv. ráðherra Rannveig Guðmundsdóttir hafði dug til þess að fytja þessa tillögu á sínum stutta ráðherraferli.

Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á áðan hafa fjömargir komið að þessu máli, þar á meðal hún sjálf í sinni ráðherratíð, og ekki grætur hún frumkvæði Rannveigar. Ég ætla rétt að vona að sú mikla vinna sem fram fór í landsnefnd um mál fjölskyldunnar komi ekki til með að týnast vegna einhvers ergelsis eins og þess sem kom fram áðan hjá hæstv. ráðherra. Það er einmitt þess vegna sem ég ákvað að vera meðflm. að þessu máli því það yrði sorglegt ef slík vinna mundi týnast niður. Ég tek undir þau orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er undarleg staða að hæstv. ráðherra félagsmála skuli sitja hér og ergja sig yfir sig yfir því að svo mikilvægu máli sé hreyft í þingsölum í stað þess að fagna því og taka undir þann málflutning.