Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:50:13 (234)

1995-10-12 11:50:13# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Margt hefur verið sagt hér í dag um málefni fjölskyldunnar. Málflutningurinn hefur fyrir mig sem nýkomna á Alþingi verið hinn undarlegasti og ég ætla að leyfa mér að reyna í nokkrum orðum að beina sjónum okkar aftur að því málefni sem er til umræðu, þ.e. viðfangsefnið málefni fjölskyldunnar, í stað þess að láta eftir mér að vera með hnútukast um þetta mikilvæga málefni.

Mig langar þó til þess að byrja á því að hrósa þeirri ríkisstjórn sem vann að undirbúningi að Ári fjölskyldunnar eftir þeirri áskorun sem Sameinuðu þjóðirnar sendu til sinna aðildarríkja. Ég held að það sé einsdæmi hversu vel var staðið að því að undirbúa þetta ár og hversu mikil breidd var sett í þann vinnuhóp sem fékk það verkefni. Mér er kunnugt um að t.d. í nágrannalöndum okkar hafi ekki verið farið eins að og satt að segja hafa t.d. fulltrúar minnihlutahópa þar í landi ekki fengið að koma að þessari vinnu með sama hætti og gert á Íslandi.

Ég vil enn fremur fá að þakka hæstv. fyrrv. félmrh. og alþm., Rannveigu Guðmundsdóttur, ásamt þeim sem eru meðflytjendur að þáltill. fyrir þetta frumkvæði. Við vitum öll að það hefur sárlega skort heildarsýn á aðbúnað og kjör fjölskyldunnar. Við vitum það líka að lágar tekjur og langur vinnudagur hefur haft veruleg áhrif á stöðu fjölskyldunnar á undanförnum árum og svo mikil áhrif í neikvæða átt að ástæða er til að hafa áhyggjur af því.

Margsinnis hefur verið bent á það að stjórnvaldsaðgerðir á hverjum tíma þurfa að taka mið af því að heildarsýn fáist á afleiðingar þeirra aðgerða og það er einmitt það sem heildstæð fjölskyldustefna gæti gert. Hún gæti komið því til leiðar að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir á einum stað sé tryggt að það hafi ekki neikvæð áhrif á kjör og aðbúnað fólks á öðrum stað eins og svo oft vill verða, því miður.

Virðulegi forseti. Sú stefna hefur verið mörkuð á undanförnum árum að færa velferðarverkefnið til sveitarfélaganna. Það er hluti af þeirri breyttu sýn sem við lítum á velferðarmálin í dag. Það er ekki lengur litið á það sem ölmusu í garð þeirra sem minna mega sín að sveitarfélögin hugi að kjörum og bæti aðbúnað þeirra. Þetta er hluti af þeirri nýju velferðarsýn sem hefur skapast á undanförnum árum og endurspeglast m.a. í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þegar verið er að vinna að dreifstýringu og færa fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga er ekki síst mikilvægt að einhvers staðar sé yfirsýn á kjörum fjölskyldunnar þannig að slys hljótist ekki af í stjórnsýslukerfinu. Við skulum aðeins staldra aftur við kjörin sem fjölskyldurnar búa við í dag. Við skulum horfa á skólamálin, við skulum taka til atvinnuþátttöku kvenna, við skulum taka til það, sem margoft hefur verið bent á, að samverustundum foreldra og barna fer stöðugt fækkandi vegna þeirrar miklu atvinnuþátttöku sem báðir foreldrar þurfa að leggja á sig til þess að framfleyta fjölskyldunni.

Við vitum það líka að t.d. hefur skólakerfið alls ekki mætt þessu breytta þjóðfélagsmunstri og það er mikið ósamræmi í skólakerfinu annars vegar og þeim tilboðum sem skólinn gerir börnum og fjölskyldum og þeim raunveruleika sem þessar fjölskyldur búa í.

Við skulum líka staldra við þá háu slysatíðni sem er á börnum á Íslandi. Við höfum nýlega heyrt tölur um að við eigum heimsmet t.d. í drukknunarslysum á ungum börnum. Þetta allt hlýtur að vekja okkur til umhugsunar og við verðum meðvituð um að það sé þörf á að taka á þessum málum á vandaðan hátt.

Það er líka mjög mikilvægt að við viðurkennum það að íslenska fjölskyldan er mjög fjölbreytileg. Það er sérstaklega mikið álag á fjölskyldum t.d. ungra barna í dag. Erfið kjör, erfitt fyrir þessar fjölskyldur að koma yfir sig mannsæmandi húsnæði og lifa af laununum. Við skulum viðurkenna það líka að það ríkir ekki jafnrétti í garð ákveðinna þjóðfélagshópa. Þar eru fatlaðir, samkynhneigðir og fleiri sem eiga langt í land með að ná jafnri stöðu á við aðra í þjóðfélaginu.

Við skulum líka huga að öldruðum sem búa við oft og tíðum skelfilegan aðbúnað og við skulum líka muna það að munstrið í umönnun aldraðra hefur breyst á undanförnum árum. Þar sem áður var í ríkum mæli fjölskyldan sem annaðist aldraða, þá hafa stofnanir átt að taka við þessu hlutverki í kjölfar breyttrar atvinnuþátttöku kvenna.

Við vitum það líka að stofnanir og hjúkrunarheimili fyrir aldraða eru af skornum skammti og því er aldraða fjölskyldan oft í mikilli neyð sem þarf að hafa yfirsýn yfir til þess að gera einhverjar raunhæfar úrbætur á. Við skulum líka muna það að vegna þessarar miklu atvinnuþátttöku beggja hjóna í dag, þá hafa fjölskyldutengsl breyst mjög á undanförnum árum. Við Íslendingar hrósuðum okkur alltaf af því hversu náin við vorum í fjölskyldum og hversu góð og öflug sambönd fjölskyldna voru á Íslandi. Þetta er því miður að breytast og þarna þarf líka að huga vel að hvernig við getum snúið þessari óheillavænlegu þróun við. Við skulum líka muna það að félagsleg tengsl þeirra sem þurfa að annast annaðhvort fatlaða, sjúka eða ung börn eru oft mjög erfið og afkoma þeirra mjög bágborin. Við skulum því endilega vera þess meðvituð að þarna þarf að gera heilmikið ef einhver bjartsýni á að fá að ríkja í lífi þessa fólks.

Virðulegi forseti. Það voru Sameinuðu þjóðirnar sem bentu aðildarríkjum sínum á að það þurfti að huga sérstaklega að fjölskyldunum og í þeim tilgangi var ákveðið að alþjóðlegt ár fjölskyldunnar skyldi verða árið 1994. Sumarið 1991 samþykkti ríkisstjórn Íslands að koma á landsnefnd sem átti að undirbúa þetta.

Það hefur komið fram í máli allflestra sem hér hafa tekið til máls í dag að mikil breidd var í þeim hópi sem fékk þetta verkefni. Þar voru aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar verkalýðshreyfinganna, þar voru fulltrúar fyrir hagsmunahópa af ýmsu tagi, sjúklinga, aldraða. Það má því gefa sér það að allt þetta fólk sem býr yfir þekkingu á nær öllum sviðum mannlífsins hafi komið þeim skilaboðum og þeirri sérfræðiþekkingu í þetta starf sem á þurfti að halda.

Það hefur oft verið vakin athygli á því að mikilvæg og góð mál ná ekki fram að ganga vegna þess að ekki ríkir sú samfella sem þarf oft að vera á milli ríkisstjórna. Þegar ein ríkisstjórn fer frá þá detta mörg góð mál niður án þess að fá afgreiðslu. Það er því ljóst að mikilvæg forvinna sem oft er búið að vinna glatast að miklu leyti. Mér finnst það miður. Þetta góða plagg, till. til þál., er unnið á vandaðan og yfirvegaðan hátt af öllum sem þarna þurfa að koma að máli. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að það væri sorglegt ef þetta góða mál fengi ekki framgöngu á hinu háa Alþingi og ég vona að fólk geti látið af flokkadráttum í þessu máli og horft á mikilvægi málsins í stað þess að horfa til einhverra flokkadrátta í svona brýnu velferðarmáli fyrir okkur öll.