Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:14:24 (239)

1995-10-12 12:14:24# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er ljóst af þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta mikilvæga mál að þingmenn sýna málinu mikinn áhuga og það er ljóst, eins og einn ræðumaður sagði áðan, að það virðist vera mikil samstaða um það. Þessi umræða hefur nú staðið í tæpa þrjá tíma en það sem vissulega hefur skyggt á umræðuna er upphaf hennar þegar hæstv. félmrh. var með hnútukast um uppruna þessa máls og hver ætti frumburðarréttinn að því. Það leiðir hugann kannski að ýmsu sem maður hefur kannski ekki velt fyrir sér. Auðvitað er það rangt hjá hæstv. ráðherra að þetta sé í fyrsta skipti að þingmaður sem verið hefur ráðherra flytur inn á þingið óbreytt frv. sem undirbúið hefur verið í ráðuneytinu. Við höfum dæmi um það. Ég get t.d. nefnt frv. til laga um ferðaþjónustu sem Steingrímur J. Sigfússon flutti óbreytt sem þingmaður en hann hafði einnig flutt það þegar hann var ráðherra og það gerði enginn athugasemd við það. Þetta er bara eitt dæmi sem hér kemur upp í hugann, þau eru til fleiri. Þannig að það leiðir auðvitað hugann að því hvernig þessu er háttað milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, hvort það sé einu sinni svo að mál sem unnin hafa verið í ráðuneyti séu bara einkaeign þeirra ráðherra sem fer með ráðuneytið. Hvort þar með sé tekinn réttur af fyrrv. ráðherrum sem hafa lagt mikla vinnu í undirbúning að ákveðnu máli og þeim hreinlega bannað að flytja málið inn á þingið þegar þeir koma hér inn sem óbreyttir þingmenn.

Það leiðir auðvitað hugann að þingsköpum. Þetta mál sem mig minnir að hafi farið í nefnd þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, þá sem ráðherra mælti fyrir því á þingi, ætti að vera þar áfram og vinnast þar áfram. Það ætti ekki að þurfa að endurflytja þau, og það á við um fleiri mál. Ég held að það flýtti fyrir málum og kæmi kannski í veg fyrir ýmsan tvíverknað. Enda var það upplýst af hæstv. ráðherra hér í vor þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flutti málið að hann væri ekki viss um að hann mundi flytja þetta í þeim búningi sem það var þá. Og auðvitað á það að vera réttur þingmanna sem hafa verið ráðherrar að geta flutt málið inn í þingið í þeim búningi sem þeir vilja en þurfa ekki að bíða eftir því að viðkomandi ráðherra á hverjum tíma þóknist að gera það. En að þessu frátöldu finnst mér umræðan hér hafa verið málefnaleg og það þarf auðvitað að gera meira af því að ræða almennt um málefni fjölskyldunnar. Hún virðist eingöngu vera í sviðsljósinu þegar verið er að ræða fjárlagagerð og niðurskurð vegna fjárlaga en síður að það sé farið í djúpar, heilsteyptar umræður um stöðu fjölskyldunnar og málefni hennar.

Það er auðvitað víða sem við komum að málefnum fjölskyldunnar, ekki bara í velferðarmálunum. Það eru ýmsir aðrir málaflokkar sem snerta málefni fjölskyldunnar eins og bæði umhverfis- og skipulagsmál, skattamál og fleiri þættir. Þannig að allt hnígur þetta að því sama; það er nauðsynlegt að hafa heildaryfirsýn yfir þennan málaflokk, móta þar heildstæða stefnu og fela einu ráðuneyti ábyrgðina á honum. Og mér finnst tímabært að hugleiða, og vel má vera að maður hugleiði þá kannski einhvern flutning hér á Alþingi í þá veru, að gera það að skyldu í sambandi við fjárlagafrv. á hverjum tíma að gefið sé yfirlit yfir hvaða áhrif einstaka þættir fjárlaga og í niðurskurði fjárlaga hafa á fjölskyldurnar. Bæði á einstaka meðlimi fjölskyldna og fjölskyldurnar í heild sinni. Er einhver sparnaður í því að ráðast í ýmsar aðgerðir sem oft er verið að gera? Mér finnst að það vanti inn í fjárlagafrv. að fá mat um það hvaða áhrif einstaka þættir hafa fyrir fjölskylduna.

Maður veltir því t.d. fyrir sér, eins og áður er nefnt, hvaða áhrif sú stefnubreyting sem raunverulega er boðuð í fjárlagafrv. hafi fyrir fjöskyldurnar. Nú er t.d. mjög óljóst hvað er að gerast í heilbrigðismálunum í fjárlagafrv. Það er talað um innritunargjöld inn á spítala. Sumir tala um það að nú eigi að fara að taka upp tillögur um að fólk geti keypt sig út af biðlistum á spítölum. Þetta fær maður allt mjög óljósar upplýsingar um. Fjárlagafrv. er loðið frá upphafi til enda, til þess gert að þingmennirnir hafi sem minnsta vitneskju um hvað framkvæmdarvaldið ætlar raunverulega að gera. Það er verið að fela hitt og þetta í fjárlögunum sem snýr að heimilunum í landinu og niðurskurði. Þannig að ég tel að það sé tímabært að skoða það að það verði skylda að hafa greinargerð með fjárlögunum sem lýsi nákvæmlega hvaða áhrif einstaka þættir hafi á fjölskyldurnar í landinu.

Ég minntist á það í minni fyrri ræðu að ég hef sjálf tekið saman slíka greinargerð við fjárlagagerð fyrir nokkrum árum. Ég er sannfærð um að það varð til þess að ýmislegt fór út af borðinu, menn sáu þarna svart á hvítu hvaða áhrif þetta hafði á fjölskyldurnar. Það er nú einu sinni þannig við fjárlagagerð, að þar veit enginn ráðherra hvað annar er að gera. Einn ráðherrann fær bara svo og svo háa fjárhæð sem hann á að skera niður og hinn fær hina fjárhæðina og svo veit enginn hvað hver er að gera. Það er ekki fyrr en við sjáum fjárlagafrv. í heild sinni að menn geta kannski farið að íhuga hvernig þessir þættir spila saman.

Ég minnist þess þegar heilbrrh. á sínum tíma var með sparnaðaraðgerðir sem fólust í því að hækka meðlagsgreiðslur. Það kom í ljós að í því var enginn sparnaður fólginn. Það var verið að hækka meðlagsgreiðslur úr 7 í 10 þús. kr. Meðlagsgreiðendur réðu ekki við þetta. Þetta kom út sem aukin útgjöld hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga sem nú er verið að glíma við að ég held í félmrn. Þannig að menn verða að horfa á þetta meira í heild sinni og menn verða að horfa miklu meira en áður til þess hvað það getur sparað að setja peninga í forvarnamál í þjóðfélaginu. Við erum langt á eftir öðrum þjóðum í því efni. Það er til skammar hvernig við stöndum að barnaverndarmálum. Það eru smápeningar sem við setjum í þessi mál. Það varð töluverð aukning þegar þessi málaflokkur fór yfir til félmrn., en hvergi nærri nóg. Við erum í þessu litla landi okkar með barnaverndarnefndir í hverju sveitarfélagi sem hafa ekki á að skipa fagfólki til að fjalla um þessi mál. Við látum lítið til barnaverndarmála. Síðan erum við að óskapast yfir því að hér sé að aukast ofbeldi og það er talað um unglingavandamál og miðbæjarvandamál o.s.frv. Eigum við ekki að líta aðeins í eigin barm og sjá hvernig við vinnum hér á hv. Alþingi? Það er nefnilega ýmislegt sem hægt er að breyta og hægt að ná fram miklum sparnaði í. Ég er alveg sannfærð um að ef við létum meira í forvarnastarf, félgsmálin, slysavarnir og vímuefnavarnir þá mundum við spara mikið í okkar dýra heilbrigðiskerfi. Og við eigum að hætta að líta alltaf á þær mælistikur sem við notum þegar við erum að meta velgengni og auð í þjóðfélaginu, þ.e. viðskiptahalla, ríkisfjárlagahalla eða viðskiptajöfnuð. Þannig metum við þjóðarauðinn en við lítum kannski minna á mannauðinn. Það er það sem við þurfum að gera, við verðum að líta á það hvernig við hlúum að fjölskyldunni og hvaða áhrif einstaka stjórnvaldsaðgerðir hafa á fjölskyldurnar eða hvernig þær spila saman í heild sinni. Og við þurfum auðvitað að skoða hvað er að gerast í þjóðfélaginu þegar fullvinnandi fólki á vinnumarkaðinum er gert að þurfa í sívaxandi mæli að leita á náðir félagsmálastofnana, bara til þess að eiga fyrir framfærslunni, bara til að geta framfleytt börnum sínum.

Ég er því sannfærð um það og það skulu vera mín lokaorð hér, virðulegi forseti, að það mun geta breytt miklu í þessu þjóðfélagi ef við mótum fjölskyldustefnu þar sem við höfum heildarsýn yfir alla þætti og hugum að fjárlagafrv. út frá öðrum sjónarhornum heldur en við höfum gert, þ.e. metum áhrifin af því sem við erum að gera hér í einstaka ráðuneytum og hvernig það spilar inn á fjölskyldurnar.