Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:32:27 (241)

1995-10-12 12:32:27# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka Valgerði Sverrisdóttur fyrir hennar innlegg. Ég vil í fyrsta lagi taka undir orð hv. þm. um nauðsyn þess að gera sér grein fyrir ábyrgðinni á því að stofna fjölskyldu og að sú ábyrgð er oft og tíðum helsti þröskuldur kvenna á vinnumarkaði, þ.e. sú ofurábyrgð sem konur bera í þessum málaflokki. Mig langaði í því tilefni að benda á hluta af efni tillögunnar, nánar tiltekið lið 2.6, þar sem segir, með leyfi forseta, um að meginviðfangsefni fjöskyldustefnu skuli vera:

,,Að stuðlað sé að fjölskylduáætlunum, m.a. með fræðslu og ráðgjöf um stofnun heimilis, ábyrgð foreldra, kynlíf, barneignir og getnaðarvarnir.``

Það má vísa til fleiri atriða í tillögunni sem einmitt benda á þetta og leggja áherslu á mikilvægi þess að báðir foreldrar beri ábyrgð á barnauppeldi og heimilisrekstri.