Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:33:34 (242)

1995-10-12 12:33:34# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það sem er hvað merkilegast við þessa umræðu er í raun það sem ekki heyrist og ekki sést. Í fyrsta lagi er það auðvitað hin æpandi þögn annars stjórnarflokksins og viðveruleysi hans við þessa umræðu. Þá á ég auðvitað við Sjálfstfl., með fullri virðingu, herra forseti, að hann skuli ekki láta svo lítið að sitja hér við þessa umræðu, hvað þá að taka þátt í henni. Það segir okkur býsna mikið og ég held að það sé óhjákvæmilegt að láta þau orð falla að það áhugaleysi er ekki nýtt af nálinni. Við urðum þess mjög áþreifanlega vör í stjórnarsamstarfi á liðnu kjörtímabili að áhuginn þar á bæ var ekki mjög mikill þegar þessi mál bar á góma. Hæstv. félmrh. og þeir framsóknarmenn mega þá vita að hverju þeir ganga í þeim efnum.

Hitt er líka jafnáberandi, og nú bið ég hæstv. ráðherra að hlusta, að spurningunni um það hver er afstaða Framsfl. og hæstv. ráðherra til þessarar þáltill. sem slíkrar, hefur ekki verið svarað efnislega í þessari umræðu þótt hæstv. ráðherra hafi tekið til máls og tveir hv. þm. Framsfl. Fremur hafa þeir valið þá leið að fjalla um aðdraganda málsins og hina formlegu hlið þess og látið það fara í taugarnar á sér að fyrrv. félmrh., núv. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, skuli fara með þetta mál fram. Hafa verið með nöldur, vil ég segja, svo ég noti nú þekkt orðalag í því sambandi. Hæstv. ráðherra hefur dottið niður í þann fúla pytt að vera að nöldra yfir því hvernig þetta stóra mál ber hér að á hinu háa Alþingi. Ég nota þetta orðalag sérstaklega vegna þess að honum er sjálfum tamt að nota það.

Mér finnst þetta vera fullkomið aukaatriði í þessu máli. Hér eigum við fyrst og síðast að fjalla um efnislega hlið þess og þess vegna árétta ég það og spyr hæstv. ráðherra beint: Hver er hans efnislega afstaða til þeirra tillagna sem hér er að finna? Er það eitthvað sem stingur sérstaklega í augu sem hann telur ástæðu til að skoða nánar og jafnvel breyta? Og er hann sérstaklega ánægður með eitthvað sem hér er að finna í þessari tillögu? Ég vil líka nota tækifærið og varpa þeirri sömu spurningu til hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur í ljósi þess að hún er nú að taka upp þennan þráð í ráðuneytinu í umboði hæstv. ráðherra í nefnd sem ætlar að fara sérstaklega ofan í þessi mál. Þetta er nauðsynlegt að þingheimur fái að vita til þess að menn geti síðan áttað sig á því undir hvaða formerkjum þessi mál á að vinna í ráðuneytinu í þessari nefnd stjórnarflokkanna. Ég vil líka láta það koma hér fram og spyrja eftir því alveg sérstaklega: Hvaða tímamörk eru þessu nefndarstarfi sett, þ.e. þessari nýju nefnd sem skipuð er af framkvæmdarvaldinu og er að hefja núna störf? Ég vil taka það fram að ég vænti þess að sú nefnd vinni þetta mál af miklum heilindum og krafti og dugnaði og hef ekki ástæðu til að ætla annað. En það er mikilvægt að við fáum það hér að vita hvort þetta eigi að vera nefnd sem sé að störfum jöfnum höndum út þetta kjörtímabil og menn fái eitthvað frá henni undir lok þess eða hvort við eigum von á einhverjum afrakstri úr hennar ranni, jafnvel á haustdögum eða fyrir áramót. Ég vil undirstrika það og hvetja hæstv. ráðherra og þá framsóknarmenn sérstaklega til dáða í þessum efnum. Ég man eins og aðrir eftir aðdraganda síðustu kosninga þar sem fólkið var í fyrirrúmi og fjölskyldan þá einkanlega, endurreisn heimilanna og allt þetta sem ég þarf ekki að endurtaka hér aftur og aftur og þeim framsóknarmönnum var mjög tamt á tungu þá dagana. Þannig að ég segi það af einlægni að ég ber auðvitað fyllsta traust til þess að menn vinni þetta mál hratt og vel en ég skýt því engu að síður að hvort það sé ekki skynsamlegt að íhuga það að fara eilítið hraðar yfir sögu. Þá segi ég einfaldlega að við setjum þessa till. til þál., sem ég vil undirstrika að er tillaga til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að marka opinbera fjölskyldustefnu, hvort þessi ágæta nefnd stjórnarflokkanna hlaupi ekki yfir þann millikafla þar sem hann er þegar kominn og nýti þá grunnvinnu sem hér er til þess að hefja það starf sem tillagan felur í sér, þ.e. að marka þessa opinberu fjölskyldustefnu og fari ekkert að fara að búa til enn aðra tillögu sem álykti um að ríkisstjórnin skuli fara að hefja mörkun opinberrar fjölskyldustefnu, að menn taki þetta bara í einni ferð. Ég er fullviss um það að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka, ef þeir væru um það beðnir, væru tilbúnir og kaldir og klárir í slíka vinnu einn, tveir og þrír ef svo ólíklega vildi til að óskað væri aðstoðar úr þeirri áttinni.

Þetta var nú um pólitíska hlið málsins og hina formlegu hlið. Hún hlýtur að taka einhvern dálítinn tíma í þessari umræðu vegna hinna nöldursömu viðbragða hæstv. félmrh. sem að mínu áliti voru fullkomlega ástæðulaus. Ég hef fulla trú á því að hann sé áhugamaður um málið og í ljósi þess á hann auðvitað að fagna þessu frumkvæði og hætta öllu nöldri.

Um efnistatriði málsins er það að segja að ég get vel tekið undir það sem sumir hafa hér sagt að þótt þessi grunnvinna sé vel af hendi leyst og ýmsar fróðlegar upplýsingar að finna í þessari ágætu till. til þál., þá er hér ekki neinn stórasannleik að finna. Hér er við það miðað að þingið og aðrir aðilar sem nærri málinu koma vinni áfram á þessum grundvelli. Ég sakna þess til að mynda eilítið í þessu sem gamall sveitarstjórnarmaður að menn fari öllu glöggar og nánar í það mikilvæga hlutverk sem sveitarstjórnirnar gegna í þessum málum öllum. Þær eru náttúrlega lykillinn að velferð fjölskyldunnar í ljósi þess að þau eru með verkefni sem vega jafnþungt og raun ber vitni, framfærsluskylduna, barnaverndina. Menn voru að vona að frumheilsugæslan kæmi heim í hérað, sem framsóknarmenn virðast nú að vísu vera að klúðra þessa dagana og vikurnar. Þannig hefði ég gjarnan viljað sjá nánari útfærslu á því. En tími minn leyfir það í raun ekki að fara nánar í efnisatriði þessa máls þó að það væri full ástæða til þess að gera það mjög rækilega.

Ég vil bara rétt í bláendann, virðulegi forseti, benda á það að málið er gífurlega margþætt eins og margir hafa hér komið inn á og í ljósi þess vek ég athygli hv. þm. á því að á borð þingmanna var verið að dreifa til að mynda frv. til laga frá hæstv. félmrh. sem lýtur beinlínis að þeirri umræðu sem við erum hér að fara í gegnum. Þar er verið að ræða um gagnkvæma framfærsluskyldu sambýlisfólks. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég styð þetta mál heils hugar. Það er löngu kominn tími til þess að á því verði tekið sérstaklega. En þetta er svona dæmi um það að hér á borðum okkar þingmanna eru hverju sinni mál sem snerta með beinum hætti þennan stóra málaflokk, sem við erum hér að fjalla um.