Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 13:41:49 (248)

1995-10-12 13:41:49# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var allsnöfurmannleg ræða hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. En það var því miður svo að það voru dálitlar þversagnir í henni og rak sig eitt á annars horn. Hann talaði annars vegar um útgjöld ríkissjóðs og talaði svo gegn því að hemja útgjaldaaukningu og kvartaði síðan yfir skattbyrðinni. Það er alveg rétt að það er ekki svigrúm í aukinni skattlagningu hér á landi eins og horfir nú. Þess vegna verða menn að horfa á þessa hluti í samhengi og horfa á nauðsynina að halda utan um útgjöldin. Auðvitað vegna fjölskyldunnar. Þetta er ekkert flóknara með ríkissjóð heldur en heimilin í landinu. Það þarf að halda utan um útgjöldin ef það er ekki svigrúm til að auka tekjur. Þetta er ekki flóknara en það. Og eins og ég sagði áðan er það nauðsynlegt fjölskyldunnar vegna að koma böndum á útgjöld ríkissjóðs og reka hann hallalausan. Það er best fyrir fjölskyldurnar í landinu þegar til lengri tíma er litið og gefur svigrúm til þess að varðveita velferðarkerfið og koma í veg fyrir óhóflegar skattahækkanir.