Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 13:50:15 (252)

1995-10-12 13:50:15# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem við erum að ræða hérna í dag er sennilega það stærsta eða með þeim stærri sem við ræðum. Þetta er málefni fjölskyldunnar og í huga okkar sjálfstæðismanna er fjölskyldan hornsteinn þjóðfélagsins og það ber að vernda hana. Skattaleg staða fjölskyldunnar er ekki góð í dag. Menn tala um jaðarskatta og þeir eru tilkomnir vegna þess að menn hafa verið að reyna að bæta stöðu fjölskyldunnar með barnabótum og barnabótaauka en vegna þess hversu dýrt það er hafa menn tengt það tekjum þannig að eingöngu þeir sem hafa mjög lágar tekjur fá þessa barnabótaauka. Það sama á við um öflun húsnæðis, þ.e. vaxtabæturnar. Menn eru þar að tengja þær tekjum vegna þess að þetta er hreinlega of dýrt. Það er ekki hægt að gefa þetta allt saman frjálst. Það mundi auka halla ríkissjóðs um fleiri milljarða.

Af þessum sökum horfum við upp á svokallaða jaðarskatta, þ.e. það sem fólk heldur eftir af hverjum þúsundkalli sem það vinnur sér til viðbótar er orðið óeðlilega hátt og má líta á það sem aðför að fjölskyldum sem eiga mörg börn.

Ég er alveg sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að stefna stjórnvalda kemur fram mjög víða, að sjálfsögðu líka í fjárlagafrv., og stefnan þar er að ekki skuli bara hugsað um fjölskylduna núna heldur fjölskyldu framtíðarinnar því að við Íslendingar ætlum að búa hér á Íslandi áfram. Það skiptir verulegu máli því að ég ætla að vona að við ætlum allir að búa hér áfram. (Gripið fram í.) Þá skiptir miklu máli að við séum ekki að reka ríkissjóð með geigvænlegum halla ár eftir ár sem er ekkert annað en skattar barnanna sem við þykjumst ætla að vernda í dag. Það er fjölskyldustefnan. Það er mjög mikilvægt að við gætum að hallanum.

Tengdir hallanum eru líka vextirnir. Vextirnir fara upp þegar hallinn á ríkissjóði er mikill og það kemur niður á húsnæðisöflun þessa sama fólks því að það vill nú svo til að fjölskyldur þurfa að búa í íbúðum. Hallinn er því mjög mikið mál. Það er mjög mikið atriði að ná honum niður. Þá komum við nefnilega að tekjunum eða gjöldunum. Annaðhvort skerum við niður gjöldin og þá er spurningin: Hvað eigum við að skera niður? Það hefur reyndar reynst erfitt. Eigum við að auka tekjurnar, þ.e. auka skattlagninguna? Það vill svo til að stærsti hluti skattgreiðenda er einmitt fjölskyldufólk þannig að við erum þarna í ákveðnum vanda.

Svo er það fleira sem kemur til. Fjölskyldan er mjög mikið háð tekjum. Ég ætla ekki að lýsa fyrir ykkur þeirri stöðu sem er á þeim heimilum þar sem atvinnuleysi er. Það er ekki jákvætt fyrir fjölskylduna. Það er ekki jákvætt fyrir börnin þegar heimilisfaðir eða heimilismóðir er atvinnulaus. Það er mjög slæmt og ég neita að viðurkenna það sem eitthvert náttúrulögmál að atvinnuleysi eigi að vera til. Atvinnuleysið er í mínum huga skipulagsvandi og ekkert annað. Það þarf að leysa þann vanda og til þess að auka atvinnuna þarf að auka fjárfestinguna. Ég hef sagt þetta áður. Fjárfestingu þarf að auka, sem sagt, aukning fjárfestingar í atvinnulífinu er um leið fjölskyldustefna þannig að það kemur fram mjög víða hvernig við ætlum að vernda fjölskylduna.

Við búum á Íslandi við allt of lág laun. Ég hef sagt það mörgum sinnum að við erum með allt of lág laun og það kemur líka niður á fjölskyldunni. Það er ekki gott fyrir fjölskylduna þegar heimilisfaðirinn eða heimilismóðirin þarf að vinna myrkranna á milli og getur ekki átt samneyti við börn sín. Það er mjög slæmt og þessu þarf að breyta. Því verður ekki breytt nema hér á landi rísi upp fyrirtæki sem eru arðbær og gróðavænleg, sýni gróða og geti borgað há laun. Það þarf að snúa frá þeirri stefnu að öll fyrirtæki séu rekin á núlli og helst fyrir neðan það. Við þurfum að lofa þá menn sem skila fyrirtækjum sínum með hagnaði og gróða. Það er líka fjölskyldustefna því þau geta þá borgað mannsæmandi laun og þeir sem eru með mannsæmandi laun þurfa ekki að vinna myrkranna á milli. Þetta kemur mjög víða fram og það sem er aðalatriðið í mínum huga er ekki það hvernig eigi að dreifa tekjunum heldur þurfum við öll saman að vinna að því að stækka kökuna. Það er fjölskyldustefna að stækka kökuna sem við öll lifum af, þ.e. atvinnulífið.