Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:04:31 (254)

1995-10-12 14:04:31# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ræður félmrh. verða alltaf sérkennilegri því oftar sem hann kemur í ræðustól. Hann vildi halda því fram að sú sem hér stendur, sem var ráðherra félagsmála í sjö ár, hefði ekki neitt gert. Hann hefur þá greinilega verið út á þekju og ekki fylgst með því sem var að gerast í félmrn. enda held ég að hann hafi ekkert gert það í gegnum tíðina fyrr en allt í einu að hann var sjálfur kominn í stól félmrh. Auðvitað veit ráðherrann að málefni fatlaðra gjörbreyttust þegar tekið var hressilega á því máli, sem ekki veitti af, 54% raunaukning var við þennan málaflokk á sjö árum sem ráðherra félagsmála er nú að skera niður og stefna í hættu reynslusveitarfélögum. Það var tekið á atvinnumálum kvenna þegar konur komu í þetta ráðuneyti. Sett var löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem aldrei hafði verið tekið á og um félagsþjónustu sveitarfélaga sem er fyrsti vísir að félagsmálalöggjöf. Nú er starfsmenntun í atvinnulífinu skorin niður, það er líka skorið niður í atvinnumálum kvenna, það er skorið niður í málefnum fatlaðra, það er skorið niður í félagslega íbúðakerfinu. Þetta er fjölskyldustefna Framsfl. í hnotskurn. Hún birtist í fjárlögunum eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Það er fjölskyldustefna Framsfl. Þegar búið er að skera svona mikið niður eins og hefur verið gert t.d. í félmrn. verður því miður erfitt að ná þessu upp. Það er verið að fara aftur í fortíðina í þessum málaflokki. Auðvitað er það hlutverk félmrh. að standa vörð um heimilin í landinu, passa upp á það þegar aðrir ráðherrar fara fram úr sjálfum sér og eru með atlögu að heimilunum í landinu. Hann hefur ekki gert það í þessari fjárlagagerð. Hæstv. ráðherra hefur ekki gert það en það var oft mitt hlutskipti þegar ég var í ríkisstjórn. En það er ekki bara ég sem er með svartagallsraus út af fjárlögunum, það veit hæstv. ráðherra. Hvað sagði miðstjórn ASÍ í gær. Fjárlagafrv. er ögrun við heimilin í landinu. Svo talar þessi hæstv. ráðherra fjálglega hér um fjölskyldustefnu. Mér finnst þessi orð ekki fara vel í munni ráðherrans.