Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:16:15 (262)

1995-10-12 14:16:15# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu og vegna ítrekaðra orða um metnaðarlaus orð á blaði, þá vil ég geta þess að því flytjum við tillögur að orð eru til alls fyrst.

Ég þakka þingmönnum góðar undirtektir og efnislega umræðu að mestu um þetta mikilvæga mál. Við ræðum allt of sjaldan um mál fjölskyldunnar vítt og breitt hér í þingsal og það er fremur fátítt að hún sé í brennidepli umræðunnar. Ég vek athygli á að þegar Alþingi samþykkir ályktun þá er það viljayfirlýsing um á hvern hátt Alþingi óskar að framkvæmdarvald geti haldið á málum. Það gildir einnig um þessa tillögu. Ég nefndi það í framsöguræðu hér að þau 16 atriði sem tilgreind eru í II. kafla tillögunnar eru eins konar forskrift um til hvaða þátta mótun fjölskyldustefnu tekur. Það er síðan stjórnvalda að marka stefnuna. Það er sérlega brýnt að slík forskrift Alþingis liggi fyrir svo unnt sé að hafa samfellu í stjórnarathöfnum óháð því hvaða flokkar mynda ríkisstjórn þótt áherslur út af fyrir sig séu mismunandi og á ólíka þætti eins og við höfum öll rekið okkur á.

Mörg þeirra atriða sem þarna eru tilgreind lúta að verkefnum á sveitarstjórnarstiginu og tillagan er í raun hvatning til beggja stjórnsýslustiga um að móta stefnu.

Ég þakka þessa umræðu.