Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:57:11 (268)

1995-10-12 14:57:11# 120. lþ. 9.6 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., KH
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka undir efni þessarar tillögu og þakka hv. 1. flm. fyrir að bera það inn á Alþingi og fyrir mjög upplýsandi og vandaða framsöguræðu. Ég hef engu við það að bæta sem hún sagði í ræðu sinni. Hún rakti í stórum dráttum þá skuggalegu þróun sem hefur orðið í innflutningi og neyslu þessara efna, sem er auðvitað mjög stórt vandamál í nútímaþjóðfélagi okkar, og við verðum að bregðast við á sem flestan máta því eins og komið hefur fram í þessum umræðum þarf að beita sér á fleiri en einu sviði. Hér er tekið á einu af þessum málum. Ég segi eins og hv. síðasti ræðumaður að ég er ekki búin að mynda mér skoðun á því hvort þetta er nákvæmlega leiðin til þess að hræða menn frá þeim voðaverkum að flytja inn fíkniefni og reyna að hagnast á sölu þeirra. Við höfum dæmi um annan málaflokk sem ég get nefnt hér eins og ofbeldisverk, fyrir nauðganir, samkvæmt lögum er heimilt að dæma menn í allt að 16 ára fangelsi, en það er aldrei gert. Það er aldrei dæmt í svo langan tíma fyrir slík verk. Það er raunar miklu styttri tími sem er algengt að menn þurfi að sitja inni fyrir þau verk.

Hins vegar dregur það ekkert úr því að það er kannski betra að hafa þennan tíma lengri. Það kann að vera að það hræði einhverja og ég tala nú ekki um ef dómarar litu til þess sem eitthvað alvarlegri brota ef refsiramminn er víðari. Það er a.m.k. mjög þarft og gott að bera þetta mál inn til þess að það fái umfjöllun í nefnd og þeir sem um þau fjalla úti í þjóðfélaginu geti sagt skoðun sína á þessum málum, sent umsagnir til Alþingis og það verði þá til þess að það verði frekar tekið á þeim málum og þau rædd áfram. Það er óhugnanlegt hvað við höfum núna á fáum árum færst æ lengra inn í þennan skelfilega heim og það vita margir hvað þetta kemur við æ fleiri einstaklinga og fjölskyldur og veldur miklu böli. Ég vildi bara taka undir þessa tillögu og þakka hv. flm. fyrir að bera hana fram.