Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 15:04:09 (270)

1995-10-12 15:04:09# 120. lþ. 9.6 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., Flm. AK
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Arnþrúður Karlsdóttir):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls í umræðunni og mig langar aðeins til þess að taka undir með hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur sem kom inn á það hér áðan það þyrfti að efla fræðslu í skólum. Ég er henni mjög sammála og lagði reyndar áherslu á það í mínum málflutningi að ég væri um leið að vekja athygli á heildstæðri forvarnastefnu í landinu þótt það hafi ekki komið sérstaklega inn í þessa tilteknu tillögu, það á nú reyndar ekki heima þar. En þá var ég auðvitað markvisst að vekja athygli á nauðsyn þess. Ég velkist því ekki í vafa um hvað það er áríðandi að fræðsla verði aukin til muna um þessi málefni innan skólanna. Það er bara spurning um hvað má byrja neðarlega.

Hv. þm. Pétur Blöndal gerði að umræðuefni gróðasjónarmiðið, að það væri ekki allsráðandi, heldur fíknin. Ég tek undir það og þakka honum þann áhuga sem hann sýndi málinu.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir velti því fyrir sér hvort refsihæðin skipti öllu máli og vísaði þar til nauðgunarmála, en þar er líka kveðið á um 16 ára hámarksrefsingu þótt hún hafi ekki sýnt sig í verki. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að það hefur áhrif ef skilaboð frá löggjafarvaldinu inn í dómstólana eru skýr, það er vilji löggjafans að það verði dæmt þyngra. Og ég trúi því að þetta sé okkar leið til að koma þessum skilaboðum á framfæri. Ég vil sömuleiðis þakka henni fyrir áhuga á þessu máli.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson efaðist jafnvel um að það væri framkvæmanlegt að hafa menn undir eftirliti. Ég er ekki að gera því skóna að réttast væri að elta menn horna á milli. En það ætti að vera hægt að grípa til réttarfarslegra úrræða í ákveðnum tilvikum eins og það að setja menn í farbann. Það er auðvitað voðalegt að þegar forsendur gæsluvarðhalds eru brostnar, þá ganga menn lausir og það er ekkert hægt að gera til þess að stöðva þá í því að koma sér úr landi.

Ég nefndi þetta stóra mál sem kom upp í fyrradag. Ég hlýt að mega spyrja að því og við getum öll spurt okkur þess: Hverjir áttu að fá þessa 20 þús. nýju hassskammta sem áttu að koma til landsins og í umferð í dag? Við hljótum að þurfa að hafa úrræði, lögreglumenn og dómstólar verða að hafa góð úrræði. Og það er okkar sem sitjum á Alþingi að reyna að sjá einhverja leið út úr því.

En ég vil sem sagt þakka innilega fyrir góðar undirtektir og vona að hið háa Alþingi sjái sér fært að veita þessu máli brautargengi.