Birting upplýsinga um kjaramál

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:08:54 (280)

1995-10-16 15:08:54# 120. lþ. 10.1 fundur 34#B birting upplýsinga um kjaramál# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að það hefur ekki tíðkast hingað til af hálfu fjmrh., hvorki þeim sem hér stendur né forvera hans, að birta einstaklingsbundnar upplýsingar um laun og gildir það held ég jafnt um þá sem á undan mér sátu, þar á meðal hv. fyrirspyrjanda.

Í öðru lagi vil ég segja að ég kannast ekki við að einhver leynilisti sé til og þessi leynilisti hafi verið sendur Kjaradómi. Ég hygg að þetta byggi á þeim misskilningi að það er auðvelt og hægt að tína út launagreiðslur til einstakra ríkisstarfsmanna eftir nöfnum og það er enginn vandi að raða þeim í röð með nútímatækni. Þess vegna gætu verið til upplýsingar um 2 efstu, 20, 30 og 2.000 og 15.000 efstu. Hér er ekki á ferðinni einhver einn leynilisti heldur eru menn að fjalla um upplýsingar um þá sem fá hæst greidd laun hjá ríkinu. Þetta vil ég að komi fram. Það getur vel verið að einhver listi hafi verið sendur Kjaradómi en þá hefur það verið gert af starfsmannaskrifstofu ríkisins og væntanlega farið með það sem trúnaðarmál.

Í öðru lagi varðandi kjarasamningana kemur fram í greinargerð fjárlagafrv., og ég hygg að flestir hv. þm., a.m.k. þeir sem hafa verið hér á hinu háa Alþingi í haust og haft tækifæri til að lesa greinargerð frv., hafi tekið eftir því að í greinargerð frv. er nokkuð ítarlega fjallað um það sem hv. fyrirspyrjandi gerði hér að umtalsefni en það eru niðurstöður kjarasamninga sem ríkið hefur frá því í febrúar. Að sjálfsögðu er hægt að gera þær upplýsingar fyllri en ég vil taka fram að enn hefur ekki verið samið við alla opinbera starfsmenn.

Ég vona að þessi svör nægi hv. fyrirspyrjanda.