Gilsfjarðarbrú

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:28:14 (295)

1995-10-16 15:28:14# 120. lþ. 10.1 fundur 38#B Gilsfjarðarbrú# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þegar vegáætlun var samþykkt, þá var þessi hv. þm. einn af mínum dyggu stuðningsmönnum hér í þinginu og ég minnist þess ekki að hann hafi óskað eftir því að ég tæki það fram í sambandi við vegáætlun að Gilsfjarðarbrú yrði boðin út á einhverjum ákveðnum tíma. Þetta er algjör hugarburður þingmannsins, ég held að hann hafi dreymt þetta, svei mér þá. (GE: Fyrirheit.) Fyrirheit í draumi, eitthvað því um líkt. Það er ekki tekið fram og hefur aldrei verið tekið fram í sambandi við vegáætlun í hvaða mánuði einstök verk eigi að bjóast út. Ég minnist þess ekki. Þannig að eitthvað hefur hv. þm. ruglast í ríminu.

Hitt er rétt að Gilsfjarðarbrúin hefur ekki verið boðin út. Ég man ekki hvort það eru tveir mánuðir síðan útboðsgögn voru tilbúin eða svo. Verkið dróst vegna þess að málið var sett í umhverfismat eins og menn muna og það var ágreiningur um vegarstæðið eins og ég býst við að hv. þm. muni einnig. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að þunginn af þessari framkvæmd falli til á árunum 1997 og 1998 og það er gert ráð fyrir því að brúin verði tekin í notkun á haustdögum 1997. Sumir hafa látið sér detta í hug september. Ég sé ekki að það skipti máli hvort það er september eða október út af fyrir sig. Það er auðvitað gaman að nefna dag og klukkustund hvenær hægt sé að aka yfir veg. En því fer víðs fjarri að um einhverja seinkun á þessu verki sé að ræða, það veit hv. þm.

Ég hef á hinn bóginn orðið var við það að verið er að reyna að gera þetta mál tortryggilegt, af hvaða sökum veit ég ekki. En þeir sem muna lengra aftur vita að það var fyrst með þeirri vegáætlun sem nú er í gildi á þessum fjórum árum sem gert var ráð fyrir því að eitthvert fé að marki færi til þessarar framkvæmdar og það var lagt fram hér í þinginu að minni tillögu. Þannig að aðrir menn hafa ekki gengið vasklegar fram í þeim efnum.