Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 16:08:40 (308)

1995-10-16 16:08:40# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég byrja á því að geta þess sem mér þykir miður að Alþingi skyldi þurfa að taka þetta mál á dagskrá með afbrigðum. Það ber ekki vott um þau vönduðu vinnubrögð sem menn hafa verið að gera hér að umtalsefni, bæði í vor og aftur nú í haust. Eins og menn minnast var sú löggjöf sem nú stendur til að breyta einmitt tekin á dagskrá og keyrð í gegnum þingið með afbrigðum í vor. Við hefðum að mínu mati ekki þurft að taka málið á dagskrá með afbrigðum einnig nú. Það eru líklega þrjár vikur frá því að forsætisnefnd náði um það samstöðu hvaða leið yrði farin varðandi breytingar á lögunum og í rauninni hefur ekkert breyst síðan. Ég vildi koma þessu á framfæri, herra forseti, vegna þess að ég tel þetta ekki til fyrirmyndar varðandi vinnubrögð Alþingis, sérstaklega ekki þar sem um er að ræða mál sem þegar hafa staðið miklar deilur um og hefði þess vegna þurft virkilega að vanda undirbúning á og hefði þurft að bera hér að með öðrum hætti.

Vegna þess að sá sem mælti fyrir breytingunum eða því frv. sem hér liggur fyrir, hv. þm. Ragnar Arnalds, fór aðeins í söguna, vil ég einnig gera það. Eftir að farið var að undirbúa þingstörfin í vor á vettvangi þingflokksformanna var fljótlega reifuð sú hugmynd að haldið yrði áfram þeirri vinnu sem hafin var um endurskoðun laga um þingfararkostnað og menn vildu þá gjarnan stefna að því að lögfesta þær breytingar á vorþinginu. Þá þegar voru til drög sem voru kynnt. Niðurstaða okkar í þingflokki Þjóðvaka var svo að taka ekki þátt í þeirri vinnu þar sem breytingar á lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað gæti ekki orðið forgangsmál á því þingi. Þar lágu fyrir eins og menn þekkja stórmál eins og GATT og breyting á lögum um stjórn fiskveiða og auðvitað bjuggumst við við því eins og fleiri að tekið yrði á málum þeirra sem búa við sérstaka erfiðleika vegna tekjutaps eða atvinnuleysis.

Það var einnig svo að í þeim drögum sem þá voru kynnt voru atriði sem við hefðum kosið að hafa betra tóm til að skoða. Frv. um breytingar á lögum um þingfararkaup var því flutt í vor í samkomulagi hinna þingflokkanna en þegar það kom til umfjöllunar og afgreiðslu töluðu þingmenn Þjóðvaka og greiddu atkvæði gegn þeim ákvæðum sem fjalla um ótilteknar kostnaðargreiðslur til alþingismanna og ráðherra og skattfrelsi þeirra.

Hv. þm. Ágúst Einarsson, fulltrúi Þjóðvaka í efh.- og viðskn., sem fjallaði um málið, sagði m.a. í minnihlutaáliti sínu, með leyfi forseta:

,,Það orkar mjög tvímælis að greiðslur ákveðnar af forsætisnefnd séu ekki skattskyldar og þar með óháðar skattalegu mati ríkisskattstjóra. Þingflokkur Þjóðvaka leggst eindregið gegn þessu ákvæði frv.``

Hann var eini nefndarmaðurinn sem skilaði séráliti. Í umfjöllun um málið var einnig varað við því að í frv. væru ákvæði sem væru til þess fallin að auka á tortryggni fólks varðandi tilgang þessarar lagasetningar, þ.e. að ekki væri einvörðungu um svokallaðar lagfæringar að ræða heldur flyti sitthvað með, einkum varðandi hinar óskilgreindu kostnaðargreiðslur þar sem forsætisnefnd hefði í hendi sér hversu há sú upphæð væri á hverjum tíma. Það má segja að forspá okkar um viðbrögð þjóðarinnar þá er hún áttaði sig á málinu hafi gengið eftir. Eftir að Kjaradómur hafði kveðið upp úrskurð sinn og forsætisnefnd Alþingis birt niðurstöður sínar varðandi framkvæmd áðurnefndra laga skall stormurinn á. Auðvitað með einhverju moldviðri eins og gengur en skilaboðin voru skýr. Þjóðin vill ekki forréttindi alþingismanna og ráðherra. Þeir eiga að vera undir sömu skattalögum og aðrir. Sá þjóðarhagur sem skammtaði svigrúmið í kjarasamningum þorra launafólks hlyti að vera sá sami þjóðarhagur og alþingismenn, ráðherrar og æðstu embættismenn þjóðarinnar byggju við. Og sú varð niðurstaða forsætisnefndar Alþingis í samráði við formenn þingflokka að afnema bæri skattfrelsi þingmanna af hinum nýju greiðslum vegna ótiltekins starfskostnaðar. En þangað til sú lagabreyting á sér stað fá þeir þingmenn sem það kjósa 40 þús. kr. skattfrjálsar á mánuði.

Í samræmi við viðhorf skattfrjálsra greiðslna af þessu tagi ákváðu nokkrir þingmenn, þar á meðal þingmenn Þjóðvaka, að afsala sér þeim greiðslum. En það er, herra forseti, að mínu mati afar slæmt ef kjörum fólks á sama vinnustað er svo komið að hluti starfsmanna getur af ýmsum ástæðum ekki tekið við launum sínum og þá er ég að tala um laun í skilningi laganna um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, um skattskyldar tekjur en til þeirra teljast samkvæmt nefndum lögum, með leyfi forseta: biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki.

Nú liggur loks fyrir frv. til laga um boðaða breytingu. En, herra forseti. Þó skattfrelsið af 40 þúsund kallinum verði afnumið með lögum þegar þingið telur henta standa enn í lögunum ákvæði um skattfrelsi af greiðslum eins og húsnæðis- og dvalarkostnaði og ferðakostnaði þingmanna og ráðherra. Eða eins og segir í því frv. sem fyrir liggur, með leyfi forseta:

,,Greiðsla þingfararkostnaðar skv. 6. og 7. gr. er framtalsskyld, sbr. lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, en ekki skattskyld. Um greiðslur skv. 8. gr. fer eftir þeim reglum sem ríkisskattstjóri setur.``

[16:15]

Í 6. og 7. gr. eru einmitt þessar greiðslur, ferðagreiðslur og dvalarkostnaðargreiðslur, sem ég gat um og verða áfram skattfrjálsar. Það er bent á það til réttlætingar að sambærilegar greiðslur hafi áður verið skattfrjálsar samkvæmt úrskurði skattstjóra og því sé hér ekki í raun um mikla breytingu að ræða. En ég hlýt þá að spyrja, herra forseti: Var það þá ekki alveg ásættanlegt fyrirkomulag því ef þetta frumvarp verður að lögum í þessum búningi þá verða áfram í gildi sérstök skattalög eða skattákvæði fyrir þingmenn og ráðherra? En það er jú það sem við erum að reyna að breyta með því frv. sem að hér liggur fyrir.

Þess var getið hér áðan að gallinn á slíku gæti verið sá að ekki væri eins tekið á málum í öllum skattumdæmum. Mér finnst það ekki vera réttlæting á því að setja sérstök skattalög hvað varðar þessa þætti fyrir alþingismenn eða ráðherra. Ef fólkið í landinu þarf, vegna þess að löggjöf er óskýr, að búa við mismunandi túlkanir eftir því hvar það býr á landinu þá verða þingmenn að sæta því sama. Ég sé ekki að það séu nokkur rök fyrir því að þingmenn búi til sérstök lög fyrir sjálfa sig til að sleppa undan því að þurfa að sæta úrskurði vegna laga sem eru svo óskýr að þau eru túlkuð með mismunandi hætti eftir skattumdæmum. Og það er meginástæðan fyrir því að sú sem hér stendur er ekki einn flutningsmanna þess frv. sem hér liggur fyrir.

Auðvitað styðjum við það skref sem hér er stigið til leiðréttingar en var ekki ásættanlegt að hafa áfram sama fyrirkomulag, þ.e. að þingmenn og ráðherrar byggju við sömu skattalög og aðrir? Og eftirláta síðan skattstjóra að úrskurða um skattskyldu svo sem verið hafði. Það hefur ekki tekist að sannfæra mig um að það væri ekki besti kosturinn. Og ég mun leggja fram breytingartillögu í þá veru að öll skattfrelsisgreinin fari út úr lögunum, þ.e. öll 16. gr.

Það eru, herra forseti, einnig hugsanlega fleiri atriði sem þyrftu að fá nákvæmari skoðun í meðförum nefndarinnar því hraðinn á málinu í gegnum þingið í vor var slíkur að ekki gafst tóm til vandaðrar skoðunar.

Það er gjarnan vísað til þess að önnur þjóðþing hagi málum með þessum eða hinum hætti. Menn hafa sagt eins og í réttlætingarskyni að hjá ýmsum þjóðþingum sé sá háttur hafður á sem gerð var tillaga um hér í vor og síðar varð að lögum, þ.e. skattfrelsi á sambærilegar greiðslur. Menn hafa sagt að þetta fyrirkomulag greiðslna og skattaleg meðferð hafi tíðkast hjá ýmsum þjóðþingum en, herra forseti, þó að það sé út af fyrir sig prýðilegt að vita að það tíðkast hjá ýmsum þjóðþingum þá er nauðsynlegt að það komi jafnframt fram að hjá öðrum þjóðþingum er það líka svo að allar greiðslur til þingmanna eru skattskyldar. Og við verðum auðvitað að haga okkur í samræmi við það umhverfi sem við búum í. Það er afar slæmt ef aðgerðir eða aðgerðaleysi alþingismanna og ráðherra í eigin kjaramálum vekja slíka tortryggni og reiði með þjóðinni sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum. Það ætti að mínu mati að ýta undir það nú þegar lögunum verður breytt að þá verði það gert með það að markmiði að þau verði öllum skiljanleg. Að ekki þurfi langa útskýringu á flóknum texta til að þjóðin geti áttað sig á því við hvaða kjör fulltrúar hennar á hinu háa Alþingi búa og ekki einungis hvað varðar krónurnar því þær eru ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að ekki verði um tiltekin lögbundin forréttindi að ræða.