Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 16:27:53 (310)

1995-10-16 16:27:53# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Auk þess sem ég hef ýmsar efnislegar athugasemdir fram að færa við það frv. sem hér er til umræðu þá tel ég óhjákvæmilegt miðað við aðdraganda þess að ræða málið í víðara samhengi við kjaramálin í landinu. Ég held að það sé alveg ljóst að sú umræða sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum vikum um kjaramálin sýni að kjaramálin í heild í landinu eru komin í miklar ógöngur og það er orðið brýnt að koma þeim í nýjan farveg ef að komast á hjá miklum óróleika og kannski stríðsástandi á vinnumarkaðnum næstu vikurnar og mánuðina.

Við vitum að 1990 var gerður kjarasáttmáli við fólkið í landinu þar sem inntakið var að frysta launahækkanir og að láglaunahópar fengju fyrst og fremst launahækkanir, væri til þess svigrúm.

Virðulegi forseti. Þar sem ég tel fulla ástæðu til að ræða þessi mál í nokkru víðara samhengi og þetta frv. gefur tilefni til þess að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. verði viðstaddir þessa umræðu, fór ég þess reyndar á leit við meginforseta þingsins að svo yrði.

(Forseti (GÁ): Það er upplýst að þeim hefur verið gert viðvart og skal forseti ítreka það.)

Á þá ræðumaður sem hér stendur að bíða þar til þeir koma í salinn?

(Forseti (GÁ): Ég sé að hæstv. fjmrh. er hér við umræðuna en forseti mun gera hæstv. forsrh. viðvart.)

[16:30]

Virðulegi forseti. Sú þjóðarsátt sem ég nefndi hér áðan í máli mínu var gerð í fullkomnu samkomulagi við verkalýðshreyfinguna til þess að þjóðin næði sér þá sameiginlega út úr þeim efnahagsþrengingum sem við vorum komin í og að atvinnulífið fengi svigrúm til að rétta úr kútnum. Það vita auðvitað allir að það á enginn eins mikinn þátt í þessari þjóðarsátt og þeir sem verst hafa kjörin í landinu. Það var ekki nóg með að fólkið sætti sig við frystingu launahækkana heldur tók launafólk á sig auknar byrðar frá atvinnulífinu í formi skattahækkana. Það er því ekkert annað en blaut tuska framan í launafólk í landinu þegar hálaunahóparnir í þjóðfélaginu brjótast út úr þessari þjóðarsátt með mörgum tugum þúsunda launahækkana til sjálfra sín á sama tíma og í kjölfar þess að framlengd var sáttin við almennt launafólk um hóflegar kjarabætur. Það hljóta allir skynsamir menn að sjá í hendi sér að meðan sú sátt hefur verið gerð við launafólkið að lægstlaunaða fólkið fái 1.000 kr. á mánuði umfram 2.700 kr. til annarra á mánuði þá er það auðvitað hrein ósvífni að bjóða launafólki upp á að hæstu launuðu embættismenn þjóðarinnar fái allt að 100.000 kr. í launahækkun á mánuði.

Ég minni á og bið hæstv. fjmrh. að hlusta, að með fjárlagafrv. segir um þessa kjarasamninga frá því í febrúar sl., með leyfi forseta:

Í febrúar sl. voru undirritaðir kjarasamningar milli stærstu landssambanda ASÍ og vinnuveitenda. Með því var lagður grunnur að öðrum kjarasamningum, öðrum samningum í landinu. Samningarnir eru til tveggja ára eða til ársloka 1996. Þessi orð í greinargerð fjárlagafrv. hlýtur að verða að líta á sem stefnu ríkisstjórnarinnar í kjaramálum. Því sætir það furðu að ríkisstjórnin hafi í raun enga skoðun á því sem gerst hefur í kjaramálum í þjóðfélaginu með nýlegum úrskurði Kjaradóms og sérlögum um skattfrelsi þingmanna sem hér er á dagskrá sem nú á að afnema að hluta til með þessu frv. sem hér er til umræðu. Ég tel að menn fari vissulega villir vega ef þeir halda að sú aðgerð, sem hér er boðuð með þessu frumvarpi, nægi ein og sér til að koma í veg fyrir uppnám á vinnumarkaðnum á næstu vikum. Það er auðvitað fádæma hroki hjá ríkisstjórninni að halda því fram að úrskurður Kjaradóms eigi í engu að breyta þeim sáttmála sem gerður var við meginþorra launafólks með kjarasamningunum í febrúar sl.

Vinnuveitendasambandið og ríkisstjórnin geta auðvitað reynt að ríghalda í að það sé aðeins ef verðlagsákvæði í kjarasamningum fara úr böndum sem yrði tilefni til uppsagnar kjarasamningi. En það er fleira sem kemur til, virðulegi forseti, og hefði mér þótt ástæða til þess að hæstv. forsrh. sé við þessa umræðu vegna þess að hæstv. ráðherra hlýtur að hafa áhuga á því hvort tilefni eða forsendur séu til þess að segja upp kjarasamningunum hér í landi sem getur auðvitað sett allt í bál og brand í þjóðfélaginu.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að forsrh. hafði gert ráð fyrir því að verða upptekinn til kl. 5 en mun koma svo fljótt sem hann getur hér í húsið og vera við umræðuna.)

Virðulegi forseti. Ég tel nú eiginlega ástæðu til að fresta mínu máli ef að hæstv. ráðherra er ekki í húsinu.

(Forseti (GÁ): Hér er umræðan á byrjunarstigi og þegar hafa nokkrir hv. þm. talað og hæstv. forsrh. kann að koma á hverri stundu þó mér sé tjáð ...)

Virðulegi forseti. Ég vænti þess þá að hæstv. fjmrh. sé þá til svara.

(Forseti (GÁ): Hæstv. fjmrh. situr hér í sæti sínu og hlýðir á umræðuna.)

En ég var að vitna til þess, virðulegi forseti ...

(Forseti (GÁ): Forseti mun gera forsrh. viðvart um þær hörðu óskir hv. þm. að hann komi hér sem allra fyrst.)

Ég var í máli mínu að vitna til þess að það væri fleira en verðlagsákvæði kjarasamninganna sem menn þyrftu að líta til þegar þeir væru að vega og meta hvort væru forsendur fyrir að segja upp kjarasamningunum. Ég vitna til þess sem fram kemur í bók Láru Júlíusdóttur, sem hún gaf út í janúar sl., um stéttarfélög og vinnudeilur. Í einum kaflanum er fjallað um hvaða áhrif samningsbrot hefðu á gildandi kjarasamninga. Þar er talað um brostnar forsendur sem eru ekki skráðar og hvað friðarskyldan á vinnumarkaði felur í sér. Mér finnst þetta mjög athyglisvert ákvæði sem ég tel ástæðu til þess að rifja upp hér.

Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Þegar talað er um brostnar forsendur í samningarétti er hins vegar átt við forsendur sem ekki eru skráðar eða ekki sérstaklega teknar fram við kjarasamningsgerðina. Hugtakið brostnar forsendur er skilgreint sem þær hvatir eða ástæður sem liggja að baki samningagerð og hafa ekki verið gerðar að skilyrði við samningsgerðina.

Talið er að reglur um brostnar fosendur geti átt við um kjarasamninga undir ákveðnum kringumstæðum.`` Ég tel einmitt að þannig kringumstæður séu nú til staðar.

Áfram segir hér, með leyfi forseta: ,,Til að hægt sé að byggja riftun kjarasamninga á reglunum um brostnar forsendur verður þó að gera ríkari kröfur en gerðar eru um samninga einkaréttarlegs eðlis og þarf að vera um verulegan forsendubrest að ræða. Telja verður að samningsaðilar kjarasamninga eigi að hafa alla möguleika á því að kynna sér aðstæður við kjarasamningsgerðina, kalla til þá sérfræðinga sem til þarf og þeir megi gera ráð fyrir ýmsum ófyrirséðum atvikum sem upp kunna að koma á samningstíma. Jafnframt ber á það að líta að kjarasamningur er ekki tvíhliða samningur heldur er honum ætlað að gilda í lögskiptum ótiltekins fjölda fólks.``

Áfram segir um brostnar forsendur kjarasamninga, með leyfi forseta: ,,Falli kjarasamningur niður vegna brostinna forsendna fellur friðarskyldan niður. Gildir þetta jafnt um brottfall kjarasamninga vegna forsendna sem samið hefur verið um í kjarasamningunum sjálfum og eins vegna reglna samningsréttarins um ósamningsbundin atriði sem eru veruleg forsenda samningsins.``

Ég held að þetta, virðulegi forseti, sé mikið innlegg í þá umræðu sem fram fer í þjóðfélaginu hvort forsendur kjarasamninga séu brostnar. Alla vega er ljóst, virðulegi forseti, að friðarskylda launafólks, sem gerð var með febrúarsamningunum, hefur ekkert gildi lengur. Menn verða að horfast í augu við þann blákalda veruleika sem við blasir að sáttmálinn sem gerður var við fólkið í landinu hefur verið rofinn og það hefur orðið til ný kjarastefna í landinu. Þetta eru skýr skilaboð til þjóðarinnar um það frá ríkisstjórninni að þjóðarbúið þolir launahækkanir. Auðvitað hljóta margir að fagna því því að þessi skilaboð fela það í sér að hver eigi bara að ná þeim kjarabótum sem hann best getur. Afstaða ríkisstjórnarinnar til kjaramálanna nú er staðfesting þess að jafnlaunastefnan og þjóðarsáttin hefur verið látin lönd og leið. Það er deginum ljósara að verði sú ákvörðun látin standa að tugir þúsunda króna gangi til þeirra betur settu hjá hinu opinbera að þá eru dagar þjóðarsáttar taldir.

Því var haldið fram í Morgunblaðinu nýverið að kjarasamningar við launafólk í febrúar sl. hafi ekki gefið fyrirheit um tiltekna launaþróun og þar er vitnað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Það má vera að það hafi ekki staðið skrifað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en það fór ekki á milli mála hvaða skoðun oddviti ríkisstjórnarinnar hafði á málinu. En í Morgunblaðinu 22. febr. er eftirfarandi haft eftir Davíði Oddssyni, hæstv. forsrh., með leyfi forseta: ,,Það er ekki vafi í mínum huga að þessir samningar, sem ná til langstærsta hluta vinnumarkaðarins, þess hluta sem lýtur lögmálum þjóðarteknanna meira en aðrir, verða algerlega fordæmisskapandi fyrir aðra samninga.``

Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að halda ráðherrunum í salnum. Þeir hafa ekki meiri áhuga á kjaramálunum í þjóðfélaginu en svo að það er mjög erfitt að halda þeim í salnum. Það er ekki einn einasti ráðherra hér inni.

(Forseti (GÁ): Hv. þm. Forseti tekur undir kröfu þingmannsins og væntir þess að hæstv. fjmrh. verði við þessa umræðu. Þess er óskað).

Ég bið hæstv. forseta að stoppa þá klukkuna á meðan ég bíð eftir því að hæstv. ráðherra þóknist að koma í salinn.

Ég var að vitna til þess að það væri nauðsynlegt að einhverjir ráðherranna í ríkisstjórn væru viðstaddir umræðuna. Við erum að tala um kjaramálin og hæstv. fjmrh. er til að mynda ábyrgðarmaður kjarasamninganna hjá hinum opinbera markaði og hlýtur að hafa áhuga á að taka þátt í umræðum um þessi mál. Ég var að lýsa því yfir að hæstv. forsrh. sagði að febrúarsamningarnir væru algerlega fordæmisskapandi fyrir aðra kjarasamninga á vinnumarkaðnum og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé sammála forsrh. um að þessir kjarasamningar hafi verið fordæmisskapandi. Hæstv. forsrh. ætti auðvitað að þurfa að skýra sín ummæli í þessum ræðustól nú þegar þetta frv. er tekið á dagskrá, frv. sem á og er lagt fram til þess að stuðla að því að lægja þær öldur á vinnumarkaðnum sem m.a. sú lagasetning sem samþykkt var sl. vor um þingfararkaup alþingismanna hefur valdið.

Forsrh. sagði að febrúarsamningarnir væru algerlega fordæmisskapandi og maður spyr hvað hafi breyst þegar það er skoðun forsrh. nokkrum mánuðum síðar þegar fyrir liggja verulegar hækkanir til æðstu embættismanna þjóðarinnar að það hafi ekki fordæmisgildi fyrir aðra kjarasamninga í landinu. Hæstv. forsrh. og reyndar hæstv. fjmrh. og fleiri hafa haldið því fram að kjarabætur sem Kjaradómur úrskurðaði til æðstu embættismanna þjóðarinnar hafi verið svo háar af því að þessir aðilar hafi ekki fengið kjarabætur um langan tíma eða frá 1989. Það er ekki rétt. Eftir að úrskurður Kjaradóms var felldur úr gildi með lögunum 1992 úrskurðaði dómurinn aftur þetta sama ár æðstu embættismönnunum 1,7% hækkun sem var til samræmis við almenna kjaraþróun á vinnumarkaðnum. Eftir það tóku síðan ný lög um Kjaradóm gildi í árslok 1992 en á grundvelli þeirra laga hefur nú verið kveðinn upp umdeildur úrskurður um launabætur til æðstu embættismanna. Það stenst varla að dómurinn taki í forsendum sínum mið af þeirri launaþróun sem orðið hefur á vinnumarkaðnum frá 1989 og ógildir þar með úrskurð Kjaradóms frá 1992 sem tekið hafði mið af undangenginni launaþróun.

Það má líka líta á, hæstv. fjmrh., þessi mál í öðru ljósi. Vegna þess að þegar bornar eru saman launahækkanir til ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna frá því 1. febr. 1989 fram til 1. sept. 1995 kemur eftirfarandi í ljós. Ég held að nauðsynlegt sé að málin séu skoðuð í því ljósi af því því hefur ítrekað verið haldið fram af hæstv. fjmrh. og forsrh. að launahækkunin hafi verið svo há vegna þess að þingmenn og ráðherrar og æðstu embættismenn, sem Kjaradómur úrskurðar laun fyrir, hafi ekki fengið neinar hækkanir á þessu tímabili. Ef reiknuð er út launahækkun þingmanna frá 1. febr. 1989 til 1. sept. 1995 þá hafa þau hækkað um 47% á þessum tíma. Laun ráðherra hafa hækkað um 60% á sama tíma en lágmarkslaunin í landinu hafa hækkað á þessu tímabili um 42% á móti 60% til ráðherra og 47% til þingmanna. En lágmarkslaunin í landinu hafa hækkað um 42% og hækkun til elli- og örorkulífeyrisþega á þessu tímabili hefur aðeins verið 35%. Ef tekin er meðaltalshækkun ASÍ-félaga þá er hún 37% eða aðeins rúmlega helmingur þeirra launahækkana sem t.d. ráðherrar hafa fengið í prósentum talið. Það er rétt að undirstrika að í þessum samanburði eru ekki teknar með hinar umdeildu 40 þús. kr. sem hér eru til umræðu. Þannig er að það er sama hvort litið er á þessu rúmlega sex ára tímabili til prósentuhækkana eða krónutöluhækkana, þetta eru verulegar umframkjarabætur til æðstu embættismanna þjóðarinnar.

Ef við lítum á þennan samanburð frá 1. febr. 1989 til 1. sept. 1995, reiknað út í krónum talið, hafa þingmenn hækkað á þessum tíma um 62 þús. kr., ráðherrar um 130 þús. kr. og til samanburðar hafa lágmarkslaun hækkað um 13.700 kr. frá 1989. Meðaltalshækkun ASÍ-félaga er 24 þús. kr. Það er sama hvorri aðferðinni er beitt, krónutöluhækkun eða prósentuhækkun. Þetta eru verulegar hækkanir umfram það sem almennt gerist á vinnumarkaðnum. Þarf nokkurn að undra þó það sé reiðialda í þjóðfélaginu og þó að verkalýðsfélag eftir verkalýðsfélag sé nú að undirbúa að segja upp kjarasamningum af því að þjóðarsáttin hafi verið brotin.

[16:45]

Það má vissulega taka þennan samanburð við láglaunafólkið og aðra ASÍ-félaga út frá öðrum sem Kjaradómur úrskurðar laun hjá en bara þingmönnum og ráðherrum. En það er alveg sama hvaða hóp maður tekur, niðurstaðan er harla svipuð í öllum tilvikum, þ.e. að láglaunafólkið eða ASÍ-félagarnir hafa fengið minna á þessu tímabili heldur en þeir sem Kjaradómur úrskurðar laun fyrir. Af þessu er ekki hægt að sjá að þau rök standist að svo langt sé síðan þingmönnum, ráðherrum og æðstu embættismönnum hafi verið úrskurðaðar launahækkanir að það réttlæti nú launahækkanir til þeirra langt um fram það sem gerist á almenna vinnumarkaðanum. Og til að öllu sé til haga haldið þá er auðvitað rétt að undirstrika það að þingmenn eru lægstir í launum af þeim sem Kjaradómur ákveður laun fyrir. Það er vissulega ljóst að ef beitt er samanburðarfræðinni þá eru ráðherrar og sérstaklega þingmenn undir því sem gerist hjá mörgum sem gegna ýmsum stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera. Það er líka staðfest í þeim leyniskjölum sem ganga nú um og sem hæstv. forsrh. vitnaði í áðan að ráðherrar eru langt undir því sem gerist hjá æðstu embættismönnum.

En málið er að það er ekki það sem skiptir máli í þessu samhengi, í þeirri stöðu sem komin er upp á vinnumarkaðnum. Við þessar aðstæður getur það ekki réttlætt hækkanir hjá æðstu embættismönnum ríkisins, ráðherrum eða þingmönnum að einhverjir aðrir sem ekki ættu að hafa hærri laun en þeir, hafi hærri laun og þess vegna eigi þingmenn, ráðherrar og aðrir embættismenn að fá hærri laun. Það mál kæmi einfaldlega til skoðunar og yrði úrlausnarefni ef farið yrði í það nauðsynjaverk að grisja frumskóg kjaramálanna og fá allar heildarlaunagreiðslur upp á borðið og stokka kjaramálin í landinu í heild upp á nýtt út frá þeirri forsendu. Þá kæmi þessi samanburðarfræði vissulega upp á borðið. Eða það sem menn hafa verið með, einhver samanburðarfræði um hvað þingmenn hafa hér og í öðrum löndum, er auðvitað út úr öllu korti í þessari umræðu sem nú er.

Það er líka alveg rétt að það er misskilingur í gangi um kjör þingmanna. Margir halda vissulega að þingmenn fái eitthvað fyrir nefndastörf o.s.frv. Undir það skal ég taka. Það er spurning hvort ekki sé ástæða til þess að taka heildarkjör þingmanna og þau verði öll skattskyld, falli bara inn í launin og verði skattskyld og hugsanlega að það verði tekið upp, eins og er hjá öðrum stéttum, að það sé greitt bara fyrir eftirvinnu samkvæmt stimpilklukku. Þá þyrfti ekki að vera nein tortryggni eða leynihjúpur yfir kjörum þingmanna. En menn mega ekki missa sig í þá samanburðarfræði sem nú hefur verið að þingmenn, ráðherrar og einhverjir embættismenn séu miklu lægra launaðir heldur en aðrir sem að þeir eigi að bera sig saman við og þess vegna sé þessi launahækkun réttlætanleg.

Við verðum að horfa á málin út frá því hvort jöfnunarstefnan og þjóðarsáttin hafi verið rofin og hvort það sé rétt að hálaunahóparnir hafi brotist út úr þeirri þjóðarsátt sem t.d. var gerð með kjarasamningunum í febrúar sl.

Ég tel að það ástand sem að nú hefur skapast sé um margt líkt því sem gerðist 1992 en þá greip hæstv. forsrh. mjög röggsamlega inn í þann úrskurð sem flestir töldu að leitt gæti til mikilla átaka á vinnumarkaðnum. Þá ritaði hæstv. forsrh. bréf til formanns Kjaradóms þar sem sagði m.a., með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,Ljóst er að niðurstaða Kjaradóms stangast í veigamiklum atriðum á við þá launaþróun sem orðið hefur á hinum almenna launamarkaði og er ekki í takt við framvindu íslensks efnahagslífs um þessar mundir. Það er mat ríkisstjórnarinnar að hinn nýfallni kjaradómur sé til þess fallinn að skapa mikinn óróa í þjóðfélaginu og gæti hæglega rofið þá samstöðu sem náðst hefur um að þjóðin vinni sig sameiginlega út úr þeim efnahagslegu þrengingum sem nú er við að glíma. Því beinir ríkisstjórnin því eindregið til Kjaradóms að hann taki úrskurð sinn þegar til endurmats eða kveði upp nýjan úrskurð sem ekki sé líklegur til að hafa þær afleiðingar sem að framan er lýst.`` Undir þetta ritaði hæstv. forsrh.

Aðgerðir ríkisstjórnar 1992 með setningu bráðabirgðalaga leiddu síðan til þess að friður skapaðist á vinnumarkaðnum sem hefur verið forsenda þess stöðugleika sem við höfum búið við. En núna, undir svipuðum kringumstæðum, telur forsrh. og hæstv. ríkisstjórn, enga ástæðu til þess að aðhafast neitt í málinu og engar ástæður eða forsendur fyrir því að febrúarsamningarnir séu lausir. Það er rétt að skoða það ögn nánar. Inntak kjarasamninganna í febrúar sl. var krónutöluhækkun en ekki prósentuhækkun launa, þannig að þeir fengju mest sem að lægst hefðu launin. Halldór Ásgrímsson, núverandi utanrrh., staðfesti þetta og sagði þá um þá kjarasamninga: ,,Ég vænti þess að það standist``, sagði hæstv. utanrrh. þá, ,, að launahækkanirnar muni fyrst og fremst ganga til þeirra sem hafa lægri launin.`` Morgunblaðið, stærsta blað landsins, sagði um það leyti, í febrúar, að það ætti öllum að vera ljóst að þessir samningar væru stefnumarkandi. Það væri hægt að vitna til fleiri aðila eins og formanns VSÍ, sem tók undir að þetta væru stefnumarkandi kjarasamningar.

En ef við lítum núna á forsendur Kjaradóms, og ég fagna því að hæstv. forsrh. er kominn í salinn, að þegar litið er til nýrri laga um Kjaradóm og þau ákvæði sem honum er gert að byggja forsendur sínar á þá kemur í ljós að í lögunum er dómnum m.a. falið að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Og þegar litið er til lögskýringa, sem eru afar athyglisverðar, með þessu ákvæði í frv. um þennan nýja kjaradóm þá kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Afar brýnt er að varðveita þann stöðugleika og samstöðu um hann sem næst á vinnumarkaðnum á hverjum tíma. Því þykir rétt að setja ákvæði þar sem tilgreint er í öðrum málslið um að taka beri tillit til þeirrar þróunar sem er í kjaramálum á vinnumarkaðnum þannig að ekki sé hætta á að úrskurður Kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu. Jafnframt felur ákvæðið í sér að Kjaradómi ber, standi þannig á, að taka tillit til launa og kjarabreytinga á vinnumarkaði sem stafi af batnandi afkomu þjóðarbúsins þó svo að breytingarnar eigi sér ekki stoð í kjarasamningum. Kjaradómi ber þannig að hafa hliðsjón,`` hæstv. ráðherra, ,, af launastefnunni á vinnumarkaðnum en ekki móta hana.`` En ekki móta hana. Þetta var lögskýring frá Alþingi. Lögskýring frá Alþingi um þetta ákvæði.

Maður spyr sig, getur það verið að kjaradómurinn sé svo stefnumarkandi að Kjaradómur hafi ekki haft hliðsjón af launastefnunni á vinnumarkaðnum heldur hafi hann mótað hana. Við skulum skoða það aðeins nánar. Það má spyrja hvort kjaradómurinn hafi virt þessar forsendur þegar almenna launaþróunin var að miða við krónutölu sem gæfi þeim lægstlaunuðu hærri bætur en ekki að miðað við prósentuhækkun. Kjaradómur hefur miðað við prósentuhækkun. Og það er ekki síst ástæða til spyrja vegna þess að forsrh. hafði, eins og ég lýsti áðan, greint frá því að kjarasamningarnir væru algerlega fordæmisskapandi. Hún er líka áleitin sú spurning þegar því er velt fyrir sér hvort rétt sé að segja upp kjarasamningum, að fram hefur komið að Kjaradómur, sem kvað upp sinn úrskurð 8. sept., vissi ekki af 40 þús. kr. sérstakri skattlausri greiðslu sem forsn. hafði þá ákveðið bæði fyrir ráðherra og þingmenn með reglum 28. ágúst eða 10 dögum áður en dómurinn kvað upp sinn úrskurð. Og maður spyr, hefði úrskurður Kjaradóms litið öðruvísi út ef hann hefði haft vitneskju um þessa fjárhæð?

Annað mikilvægt atriði þarf einnig að upplýsa í forsendum Kjaradóms sem er lykilatriði til viðbótar fleiru þegar metið er hvernig hálaunahóparnir hafa brotist út úr þjóðarsáttinni. Spurningin er þessi: Var í forsendu Kjaradóms metið sem hækkunartilefni, sem hækkunartilefni til æðstu embættismanna, sérstakar bætur sem einvörðungu hafa gengið til þeirra lægstlaunuðu? Hafi Kjaradómur stuðst við launavísitölu Hagstofunnar, sem felur einnig í sér hinar sérstöku kjarabætur til þeirra allra lægstlaunuðu, þá vaknar vissulega sú spurning hvort krónutöluhækkunin til lægstlaunaða fólksins hafi síðan verið metin hlutfallslega sem hækkunartilefni til þeirra sem Kjaradómur úrskurðar laun fyrir. Þetta er lykilatriði að upplýsa hvort sérstakar láglaunabætur hafi verið dæmdar af Kjaradómi sem sérstakt hækkunartilefni til hálaunahópanna.

Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort þetta hafi verið skoðað sérstaklega þegar menn í fjmrn. eru að meta það hvort að forsendur kjarasamninga séu brostnar. Það gengur auðvitað ekki ef Kjaradómur neitar að afhenda allar forsendur fyrir þessum hækkunum eins og kjaranefnd hefur gert. Ég tel því mjög brýnt við meðferð þessa máls á Alþingi að hv. efh.- og viðskn., sem væntanlega fær þetta frv. til umfjöllunar, kalli til sín formann Kjaradóms til þess að upplýsa að minnsta kosti tvennt:

Í fyrsta lagi, voru sérstakar láglaunabætur notaðar sem hækkunartilefni til hálaunahópanna og hluti kjarabótanna til þeirra sé vegna sérstakrar krónutöluhækkunar til lægstlaunaða fólksins sem síðan hafi verið metin hlutfallslega sem hækkunartilefni til hálaunahópanna sem Kjaradómur úrskurðar laun?

Í öðru lagi, þá tel ég að nefndin hljóti að spyrja formann Kjaradóms að því, ef það hefur verið upplýst á sínum tíma og Kjaradómur hefur vitað um þessa sérstöku 40 þús. kr. greiðslu til þingmanna og ráðherra, hefði Kjaradómur vitað um þá fjárhæð, hefði það breytt úrskurði dómsins? Hefði það breytt úrskurði dómsins? Og telur Kjaradómur tilefni til þess að endurskoða dóminn í ljósi þessara greiðslna?

Ég held að það sé ljóst, virðulegi forseti, að um það getur aldrei orðið friður á vinnumarkaðnum að þjóðarsáttin eigi bara að gilda um láglaunafólkið og á meðan leiki aðrir, þeir sem betur hafa það, lausum hala og fái margfaldar kjarabætur á við þá verst settu. Málið snýst líka um kjarastefnu ríkisstjórnarinnar og ég fagna því að hæstv. forsrh. er hér í salnum og ég vil spyrja hann: Hefur kjarastefna ríkisstjórnarinnar eitthvað breyst? Og þá mætti spyrja, því þessi sami forsrh. sem nú er var einnig 1992 þegar hliðstæður úrskurður Kjaradóms kom, að þá taldi forsrh. ástæðu til þess að beita sér í málinu. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. sérstaklega að því af því að hæstv. ráðherra sagði hér í febrúarsamningunum, sem ég held nú að allir hafi tekið undir, að kjarasamningarnir í febrúar væru fordæmisskapandi, væru algjörlega fordæmisskapandi fyrir aðra í þjóðfélaginu. Hefur kjarastefnan þá breyst, vil ég líka spyrja hæstv. forsrh., frá því að þessi sami hæstv. forsrh. sagði í bréfi til formanns Kjaradóms 1992, að úrskurður dómsins þá stangaðist í veigamiklum atriðum á við þá launaþróun sem orðið hafði á hinum almenna vinnumarkaði. Þá sagði hæstv. forsrh. að þessi nýfallni kjaradómur 1992 væri til þess fallinn að skapa mikinn óróa í þjóðfélaginu og gæti hæglega rofið þá samstöðu sem náðst hafði um að þjóðin vinni sig sameiginlega út úr þeim efnahagsþrengingum sem við er að glíma.

Auðvitað hefur þessi úrskurður og þessi kjaramálaumræða og úrskurður Kjaradóms leitt hugann að mörgu öðru, náttúrulega líka þeim ógöngum sem lífeyrismálin eru komin í. Þegar þessi úrskurður Kjaradóms hækkar lífeyri ráðherra eða þeirra sem hafa gegnt ráðherrastöðu í sex ár, um heilar 30.000, sem er svipuð fjárhæð og er algengur lífeyrir á hinum almenna markaði. Og það mætti auðvitað hafa hér langa sögu um ýmsa samanburðarfræði í launamálum. Hver launakjör bankastjóra eru, ýmislegt sem væri hægt að upplýsa hér sem er auðvitað langt umfram það sem þingmenn og ráðherrar hafa, ef við værum yfirleitt í þeirri samanburðarfræði. En eins og ég sagði, virðulegi forseti, þá megum við ekki missa okkur í hana vegna þess að þetta mál snýst á þessari stundu um allt annað.

Og það er auðvitað ljóst, herra forseti, að það þingmál sem hér er til umræðu varðandi skattalega meðferð á kjörum þingmanna, er hluti af þeim óróa, svo vægt sé til orða tekið, sem er nú á vinnumarkaðnum. Það er ljóst af viðbrögðum heildarsamstaka launafólks og einstakra verkalýðsfélaga, sem segjast ætla að segja upp kjarasamningum, að þetta frv., þó það sýni ákveðna viðleitni þingsins, að það eitt og sér mun ekki lægja þær ófriðaröldur sem eru í þjóðfélaginu vegna kjaramálanna.

[17:00]

Vissulega er það svo að þingmenn geta kvartað yfir sínum launum samanborið við hópa og einstaklinga eða stéttir sem sambærilegar geta talist. Þingmenn verða líka einfaldlega að búa við það að hækkanir til þeirra eru miklu viðkvæmari og eldfimari en til annarra stétta í þjóðfélaginu enda hefur orðið verulegur vandræðagangur oft og tíðum á hækkunum til þingmanna. Og ég verð að segja að það orkar vissulega tvímælis í hvaða farveg þau eru komin með nýjum lögum um þingfararkaup frá því í vor. Þótt í þeim lögum sé að mestu tekið á því sem snýr að kostnaði þingmanna vegna þingsetu þá er í lögunum einnig ákvæði um beinar kauphækkanir til til þingmanna eins og beinar launauppbætur til forsætisnefndar, nefndaformanna og formanna þingflokka. Þannig er það í reynd að Kjaradómur og að hluta til forsætisnefnd ákveður bein laun þingmanna. Sú tilhögun leiðir til þess að það er ekki einn aðili eins og Kjaradómur sem hefur heildaryfirsýnina yfir beinu launakjörin og metur sínar ákvarðanir út frá því, heldur líka forsætisnefndin. Þannig er ákvörðunin um beinar launagreiðslur í höndum tveggja aðila. Það getur skapað ákveðið misræmi og ákveðna tortryggni. Og þar koma ekki bara til sérstakar launauppbætur vegna nefndaformennsku, starfa í forsætisnefnd og þess háttar, heldur er ljóst að ýmsir í þjóðfélaginu, eins og verkalýðshreyfingin, efa að 40 þús. kr. greiðslan sé starfskostnaður og fullyrða jafnvel að hún sé bein launahækkun. Það vekur t.d. upp þá spurningu sem ég beini til hæstv. forseta: Hvers vegna var ekki tekið á því í þessu frv. að 40 þús. kr. greiðslan nái ekki til ráðherra sem fá starfskostnað greiddan í sínu ráðuneyti? Ætli ráðherra t.d. að þiggja greiðsluna án þess að leggja fram reikninga er erfitt að líta á þetta sem annað en beina launahækkun til ráðherranna. Spurningin er af hverju ekki var tekið sérstaklega á því í frv. sem hér er fjallað um að starfskostnaðurinn næði ekki til ráðherra. Það hefði eytt ákveðinni tortryggni.

Í annan stað gilda sérlög um skattalega meðferð á starfskostnaði þingmanna þegar 16. gr. er ekki að fullu hreinsuð út. Og áfram stendur í þessum sérlögum að húsnæðiskostnaður og ferðakostnaður skuli lúta sérstökum lögum og vera óháð skattalegu mati ríkisskattstjóra. Þessar greiðslur hafa verið háðar skattalegu mati ríkisskattstjóra sem væntanlega, ef ákvæðið félli út úr lögunum, myndi þá endurúrskurða þessar greiðslur varðandi skattalega matið með sama hætti og áður. Meðan þessi ákvæði eru skilin eftir í 16. gr. þá gilda áfram sérlög, óháð skattalegu mati ríkisskattstjóra um greiðslur á ákveðnum starfskostnaði alþingismanna. Sé þetta skilið eftir, en 40.000 kr. verði skattskyldar, vekur það enn frekari tortryggni um að sú greiðsla sé starfskostnaður með líkum hætti og ferða- og dvalarkostnaður. Mér er því óskiljanlegt af hverju forsætisnefnd hefur ekki lagt það til að 16. gr. félli öll út og að þessi starfskostnaðargreiðsla næði ekki til ráðherra.

Það er eitt sem væri fróðlegt að fá upplýsingar um og býr ekkert annað að baki en að fá upplýsingar frá hæstv. forseta. Þar á ég við gildistímann á framkvæmdinni. Þótt gildistími framkvæmda á ýmsum ákvæðum laganna frá því í vor hafi verið í höndum forsætisnefndar, en samkvæmt reglum forsætisnefndar frá því 28. ágúst var framkvæmdin ákveðin frá 1. sept. sl., þá var sú skýring gefin á skattfrjálsri greiðslu til þingmanna og ráðherra um síðustu mánaðamót að ekki væri hægt að koma í veg fyrir hana með vísan í 77. gr. stjórnarskrárinnar. Margir héldu því þó fram að forsætisnefnd gæti með einfaldri breytingu á reglum sínum frestað greiðslunni, t.d. þar til þau lög hafa tekið gildi sem við erum nú að fjalla um og kveða á um skattskyldu þeirra. Og þegar litið er á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar sem okkur þingmönnum Þjóðvaka var tjáð að væri ástæðan til þess að ekki var frestað þessari skattalegu greiðslu í september þá segir þetta ákvæði í stjórnarskránni svo, með leyfi forseta:

,,Skattamálum skal skipa með lögum.`` Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

Það hefur vafist fyrir mörgum, m.a. Sigurði Líndal prófessor, eins og kom fram í útvarpi fyrir nokkrum vikum, hvernig hægt væri að beita þessu ákvæði stjórnarskrárinnar í þessu tilviki. Ákvæði um gildistöku framkvæmdarinnar var ákveðið með einföldum reglum forsætisnefndar og hefði því átt að vera hægt að fresta henni með breytingu á gildistöku þessa ákvæðis af forsætisnefnd án atbeina Alþingis. Ég beini því til forseta að hann skýri, bara svona í upplýsingaskyni, samhengið á milli þessa ákvæðis í stjórnarskránni og þess, að ekki var hægt að fresta þessari umdeildu ákvörðun um síðustu mánaðamót. Það gæti haft þýðingu fyrir fleiri mál í þinginu. Við þekkjum það vel að þrátt fyrir ákvæði um framkvæmd ýmissa ákvæða sem fela í sér réttar- eða kjarabót fyrir fólk, er þeim iðulega frestað hér á hv. Alþingi. Við höfum mörg dæmi. Nýjasta dæmið er að fresta greiðslum til þeirra sem urðu fyrir ofbeldi 1993 en eins og fram kemur í greinargerð í fjárlagafrv. á að fresta þeim um eitt ár. Við höfum því ýmis dæmi um slíka frestun þannig að mér finnst fróðlegt að fá skýringu hæstv. forseta á því, hvernig hann sér samhengi þarna á milli með því að vitna í stjórnarskrána.

Herra forseti. Það er líka ástæða til að minnast á það ákvæði í lögum um þingfararkaup frá því í vor sem fjallar um fæðingarorlof sem ekki er neitt breytt í þessu frv. Nokkrar umræður spunnust um það í sumar að verið væri að veita þingmönnum rétt á fæðingarorlofi umfram það sem aðrir hefðu, en þetta ákvæði laganna er orðað svo:

,,Alþingismaður á rétt á fæðingarorlofi þann tíma sem lög eða kjarasamningar opinberra starfsmanna ákveða.``

Þarna er ekki gerður greinarmunur á hvort þingmaður er karl eða kona. Og eins og ákvæðið er orðað í lögunum er ljóst að allir þingmenn, karlar og konur, eiga rétt á fullu fæðingarorlofi. Þannig er réttur feðra sem eru þingmenn meiri en í öðrum stéttum. En það er líka engu að síður ljóst af greinargerð með frv. frá því í vor og ræðu 1. flm. að það var ekki hugmyndin að gera rétt feðra sem eru alþingismenn betri heldur en annarra. Og forsætisnefnd hefur í reglum sínum tekið mið af þeirri túlkun. Engu að síður stendur lagabókstafurinn um umframrétt til alþingismanna og reglur forsætisnefndar geta ekki tekið af þann rétt sem samkvæmt bókstafnum er tryggður í sjálfum lögunum. Það er brot á lögunum ef forsætisnefnd er að rýra með reglum þann rétt sem fólk á samkvæmt þeim. Mér sýnist því að ef menn vilja færa þetta til samræmis við það sem er, sem ég er ekkert sérstaklega að mæla með, þá verði að breyta lögunum. Auðvitað væri ágætt að þetta stæði og aðrir gætu komið á eftir og fengið rétt byggðan á þessum lögum. En ef það er meiningin að þingmenn hafi ekki rétt umfram aðra, þá verður að breyta lögunum. Og ég beini því til forseta hvort það hafi ekki verið skoðað sérstaklega og hvort ástæða sé ekki til þess að breyta þessu þar sem hver og einn þingmaður getur byggt rétt sinn á lögunum og lagabókstafnum sem slíkum. Þar hafa reglur forsætisnefndar ekkert gildi á meðan lagabókstafurinn stendur.

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið ýmis ákvæði í þessum lögum frá því í vor sem ástæða hefði verið til þess að skoða nokkuð betur, en þetta frv. um þingfararkaup fór nokkuð hratt hér í gegnum þingið. En því ber vissulega að fagna að hið umdeilda skattfrelsi er tekið út úr lögunum með frv. þótt ekki sé gengið nægjanlega langt í því efni. Og eftir stendur áfram hin opna heimild forsætisnefndar sem ekkert þak er á. Forsætisnefnd getur hvenær sem er með einfaldri ákvörðun án þess að nokkurn tíma komi til kasta þingsins hækkað eða lækkað greiðslur. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki hafi komið til greina að setja eitthvert þak á heimildarákvæðið um greiðslu á starfskostnaði. Ég veit ekki hvort forsætisnefnd er nokkur greiði gerður með því að hafa slíkt opið ákvæði inni í lögunum.

Ég held að þó margt megi um þetta ræða, þá sé ein niðurstaða sem hægt er að draga af þessari umræðu um kjaramál sem verið hefur í þjóðfélaginu á um liðnum vikum. Hún knýr á um sem aldrei fyrr að það verði að ráðast í heildaruppstokkun á öllum kjaramálum í landinu. Og ég tel, virðulegi forseti, og veit að hæstv. forsrh. getur tekið undir það, a.m.k. í hjarta sínu þótt hann viðurkenni það ekki, að það verður aldrei friður eða sátt í þjóðfélaginu um kjaramálin nema á því sé tekið með þeim hætti sem ég hef hér lýst.