Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:11:05 (311)

1995-10-16 17:11:05# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða um fæðingarorlofið, það hef ég gert áður, en ég tel að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. að lögin gefi meiri rétt heldur en var áður hjá alþingismönnum.

Það sem var athyglisvert við ræðu hv. þm. var hve mikill tími fór í að ræða um niðurstöðu Kjaradóms . Af því tilefni held ég að sé nauðsynlegt að láta það koma fram að þeir sem hafa kynnt sér niðurstöðu Kjaradóms og skoðað tímasetningar frá árinu 1989 sjá að það er auðvitað út í bláinn að fara að miða við 1. febr. 1989, en þá hafði Kjaradómur verið að leiðrétta laun alþingismanna í tvö undanfarandi ár. Þetta segi ég hér til að menn átti sig á því hver aðalvandinn er í raun og veru. Aðalvandamálið er það að Kjaradómur úrskurðar allt of sjaldan. Þannig að þegar úrskurðurinn kemur, þá er hann ekki í neinum takti við síðustu kjarasamninga sem gilda venjulega ekki nema í miklu styttri tíma.

Þetta er þó ekki það aðalatriðið sem ég ætlaði að nefna, heldur hitt að hv. þm. sat í ríkisstjórn og ég reyndar líka á þeim tíma sem við settum ný lög. Og hv. þm. var aðili að því stjfrv. sem þá var lagt fram. Í þessu stjfrv. var gert ráð fyrir því að nú skyldi Kjaradómur taka tillit til almennrar launaþróunar að auki við önnur viðmið sem tiltekin eru í lögunum. Ef hv. þm. vill nú að notuð séu lög til að koma í veg fyrir það að niðurstaða Kjaradóms haldi gildi sínu, þá verður hv. þm. hér í ræðu sinni að segja öðrum hv. þm. hvað hún vill fá í staðinn. Það er alveg ljóst að það fæst ekki nokkur maður til að starfa í Kjaradómi ef hann má eiga víst að í hvert sinn og úrskurður kemur fram frá dómnum, þá komi Alþingi og breyti niðurstöðunni. Þess vegna verður hv. þm. að koma hér og svara því mjög skýrt: Hvað vill hv. þm. að komi í staðinn? Eiga alþingismenn að ákveða laun sín sjálfir?