Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:17:35 (314)

1995-10-16 17:17:35# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram hér í máli mínu að ég dreg mjög í efa þær forsendur sem Kjaradómur byggir á. Ég veit vel að ég átti aðild að þeirri lagasetningu en ég kom í ræðustól áðan og lýsti hvað fram kom í frv. um Kjaradóm sem var settur á sínum tíma. Lögskýring um það hvernig hann ætti að vinna. Þar er talað um að Kjaradómi beri að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum. Ekki að móta hana. Ég dreg í efa að Kjaradómur hafi farið eftir þeirri forskrift sem þingið gaf honum. Það er það sem ég hef verið að halda fram og það þarf að skoða nákvæmlega. Ég hef svarað því hvað þingmenn Þjóðvaka vilja gera. En ríkisstjórnin og hæstv. ráðherrar koma sér aftur og aftur hjá því. Það er alveg sama hvaða umræða það er, hvort það er um fjárlög, stefnuræðu forsrh. eða kjaramálin að þeir reyna að frýja sig ábyrgð á því hvernig kjaramálin þróast í landinu. Hæstv. ríkisstjórn kemst bara ekkert upp með það. Hún verður náttúrlega að sýna hvaða línur hún ætlar að leggja í þessu stóra máli. Hæstv. ráðherra hlýtur að vera það ljóst að það er að skapast hér stríðsástand á vinnumarkaðnum og ríkisstjórnin skilar bara auðu og telur sig ekki þurfa að koma fram með neina stefnu í kjaramálum. Mér er þetta algerlega óskiljanlegt. Ég veit að ég get ekki knúið ráðherrann í þessum ræðustól til að svara því hvaða stefnu hann hefur en ég vænti þess að verkalýðshreyfingin muni fyrr en síðar fá ráðherrana til þess að segja það skýrt og skorinort hvaða stefnu þeir hafa í kjaramálum. (Gripið fram í.) Þeir komast ekki upp með annað.