Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:23:08 (316)

1995-10-16 17:23:08# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., Flm. ÓE
[prenta uppsett í dálka]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Til mín hefur verið beint örfáum fyrirspurnum sem ég skal reyna að svara auk þess sem nokkur atriði í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur gefa mér tilefni til að segja örfá orð.

Í fyrsta lagi nefndi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að Kjaradómur hefði ekki vitað af 40 þús. kr. greiðslunni sem ákveðin var af forsn. á grundvelli 9. gr. laganna um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Hún spurði --- ég veit að vísu ekki hvort fyrirspurninni var beint til mín --- hvort Kjaradómur kynni að hafa komist að annarri niðurstöðu ef hann hefði vitað um þessa 40 þús. kr. greiðslu. Mín skoðun er sú að í sjálfu sér átti vitneskja til eða frá um þessa upphæð eða aðra ekki að skipta máli fyrir Kjaradóm þegar hann var að fella úrskurð sinn um laun alþingismanna. Þetta segi ég vegna þess að ég lít ekki á þetta sem laun. Það er beinlínis rangt að halda því að fólki, eins og margir hafa gert, að hér sé um launagreiðslu að ræða. Þetta er greiðsla á starfskostnaði og ekkert annað. Ég tek það fyllilega trúanlegt að Kjaradómi hafi ekki verið kunnugt um þessar 40 þús. kr. þótt forsn. hafi kveðið upp úrskurð sinn eða samþykkt reglugerðina 28. ágúst en Kjaradómur kvað upp sinn úrskurð 8. sept. ef ég man dagsetningar rétt.

Hitt er annað mál að mér sýnist óþarfi að gera þetta að einhverju stóru máli í umræðunni. Þegar frv. var til meðferðar hér á vordögum þá vissu menn vel um það að þær upphæðir sem voru þarna á kreiki voru á bilinu 30--40 þús. kr. Þetta átti því ekki að koma mönnum svo mjög á óvart að forsn. komst að þessari niðurstöðu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði líka að beinar launagreiðslur væru nú í höndum tveggja aðila. Þetta er rangt. Beinar launagreiðslur til þingmanna eru eingöngu í höndum Kjaradóms. Þá kem ég enn og aftur að því að starfskostnaður er ekki launagreiðsla, hann er greiðsla fyrir útlögðum kostnaði. Það er fullkominn aðskilnaður sem ríkir milli viðfangsefna forsn. og Kjaradóms í þessum efnum.

Þá nefndi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að ráðherrar ættu að njóta þessara starfsgreiðslna. Og ef ég hef skilið hv. þm. rétt þá spurði hún hvort það hafi ekki komið til álita í forsn. að undanskilja ráðherrana þessari greiðslu. Engin ákvæði eru í lögunum sem heimila forsn. að segja sem svo að einhver tiltekinn hópur þingmanna, í þessu tilviki ráðherrar, eigi ekki að njóta tiltekinna greiðslna sem forsn. er gert að úrskurða um. Til þess gat því ekki komið að áliti forsn. og með vísun til laganna að forsn. gæti ákveðið að ráðherrar nytu ekki þessara starfsgreiðslna.

Þá minntist hv. þm. á gildistíma úrskurðar forsn. sem er 1. sept. og spurði hvort forsn. hefði ekki getað frestað framkvæmdinni á greiðslunum. Svar mitt er að forsn. taldi sér það ekki heimilt. Hins vegar beitti forsn. sér fyrir því að 40 þús. kr. greiðslan var ekki innt af hendi fyrr en um mánaðarmótin sept./okt. þótt það sé viðtekin venja að fastar greiðslur séu greiddar fyrir fram eins og laun hjá hinu opinbera. Forsn. taldi hins vegar að hún gæti ekki frestað greiðslunni sem hún var búin að ákveða og taldi sig ekki hafa heimild til að leggja á þetta staðgreiðsluskatt. Ég vona að um það sé heldur ekki ágreiningur.

Ég ætla ekki við þetta tækifæri að ræða neitt sérstaklega um ákvæði laganna eða reglnanna um fæðingarorlof. Mér er kunnugt um ágreining sem er uppi um það efni og þykir ekki ólíklegt að um það mál getum við rætt sérstaklega við annað tækifæri. Það er vafalaust rétt lögskýring hjá hv. þm. að reglur ýta ekki til hliðar ákvæðum laga. Ég er alveg sammála þeirri lögskýringu. Það kann að þurfa að athuga það betur hvort menn vilja breyta reglunum eða hvort menn vilja breyta lögunum. Það er nokkuð sem þarf að ræða betur og við annað tækifæri.

Þá spurði hv. þm. hvort ekki hefði komið til álita að setja þak á þetta ákvæði um greiðslu starfskostnaðar. Forsn. gerir það einmitt í reglum sínum. Ef hv. þm. hefur átt við að þetta þak ætti að vera í lögunum þá held ég að það sé hæpið að setja einhverja fasta upphæð í lögin. Mér sýnist að það verði að ákveða það í forsn. og það var einmitt það sem hún gerði. Þakið er 40 þús. kr. og þeir hv. þm. sem velja þann kostinn að skila reikningum en þiggja ekki föstu greiðsluna að frádreginni staðgreiðslunni geta skilað reikningum allt upp í 40 þús. kr. á mánuði eða 480 þús. kr. yfir árið en ekki meira. Það er þakið sem forsætisnefnd hefur einmitt sett.

Forsætisnefnd mun án efa taka þetta mál allt til endurmats að loknu þessu þingi. Á grundvelli reikninga sem verða lagðir fram kann að verða breyting á þessari upphæð. Ég held að þetta sé eðlilegt ákvæði eins og það er að forsætisnefndinni sé falið það viðfangsefni að ákveða upphæðina.