Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:34:04 (318)

1995-10-16 17:34:04# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., Flm. ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég hef misheyrt í fyrri ræðu hv. þm. en ég leit svo á að þingmaðurinn hefði verið að tala um laun og að launin væru í höndum tveggja aðila. (JóhS: Álag á laun.) Álag á laun er ekki í höndum forsætisnefndar. Það eru lögin sem við samþykktum á vorþinginu sem segja að það skuli greiða tilteknum hópi þingmanna, formönnum þingflokka og formönnum fastanefnda, 15% álag á kaupið. Það er ekki forsætisnefndin, það er misskilningur hjá (JóhS: Það eru fleiri aðilar.) Já, en lögin segja þetta þannig að það er misskilningur. Lögin ákveða að þessir aðilar skuli hafa 15% álag á þingfararkaup sem Kjaradómur ákvarðar þannig að þar er ekki verið að fara með veggjum. Kjaradómur veit alveg nákvæmlega hvað þessir aðilar fá í laun. Það er alveg ljóst.

Svo aðeins frekar um ráðherrana. Ég get ekki séð að forsætisnefndin hafi heimild til þess að undanskilja ráðherrana. Þeir eru alþingismenn, svo einfalt er það, þannig að við höfum enga heimild til þess að undanþiggja þá þessari greiðslu.

Samhengið við stjórnarskrárákvæðið sem rætt var fyrir nokkrum vikum var það að forsætisnefndin hefur enga heimild til þess að leggja staðgreiðsluskattinn á 40 þús. kr. Hún hefur ekki skattlagningarvaldið og skattlagning verður heldur ekki gerð afturvirk eftir breytingu sem við gerðum á stjórnarskránni á sl. vori. Það var það sem við vorum að tala um í þessu samhengi þegar 40 þús. kr. voru greiddar út fyrir septembermánuð.