Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:36:22 (319)

1995-10-16 17:36:22# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekki einungis Kjaradómur sem fjallar um beinar laungreiðslur, það er alveg ljóst. Þingið hefur sett lög um þingfararkaup sem fela ekki bara í sér greiðslur fyrir útlagðan starfskostnað heldur líka beinar launagreiðslur til þingmanna þannig að það eru tveir aðilar sem slíkir sem ákvarða launin sem ég tel ekki góða latínu.

Hv. þm. sagði að forsætisnefndin hafi ekki haft heimild til þess að úrskurða að ráðherrar fengju ekki þessa 40 þús. kr. greiðslu af því að þeir væru alþingismenn. En virðulegi forseti, það stendur líka í lögum um þingfararkaup að húsnæðis- og dvalarkostnað og ferðakostnað skuli greiða alþingismanni. Hvernig stendur á því að forsætisnefnd kemst þá hjá því að greiða ráðherrunum þetta vegna þess að það er ekki neitt öðruvísi orðað varðandi alþingismanninn í 6. og 7. gr. fremur en 9. gr.

Ég hef nú fengið skýringuna varðandi stjórnarskrárákvæðið en ég sé ekki að það hefði breytt því að forsætisnefnd hefði verið í lófa lagið að fresta gildistökunni um einhvern óákveðinn tíma vegna þess að það var hún sjálf sem ákvað gildistökuna en ekki lögin sem slík.