Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:57:14 (322)

1995-10-16 17:57:14# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um að allt eigi að vera opið og við eigum að kalla hlutina réttum nöfnum. Við eigum að kalla launahækkanir launahækkanir og við eigum að kalla tilkostnað tilkostnað og ef hann á að vera frádráttarbær frá skatti þá eigum við að reiða fram reikninga fyrir honum.

Hins vegar verð ég að segja það að mér finnst þetta tal um launakerfi ríkisins harla villandi. Það er gjarnan fullyrt og maður hefur oft heyrt þetta einmitt frá þingmönnum og talsmönnum Kvennalistans að launakerfi ríkisins sé hrunið og svo er að skilja á þeirra málflutningi að þar sé allt útbíað í sporslum. Ég er sannfærður um að þetta á við rök að styðjast í efri hluta launakerfisins og mér finnst vera mjög brýnt að við fáum rækilega úttekt á því, úttekt á þóknunargreiðslum sem eru við lýði í hinu opinbera launakerfi, enda hafa verið færð fyrir því rök og sýnt fram á það að þessar greiðslur valdi kjaramisrétti, kynjabundnu kjaramisrétti, og á því ber að taka. Staðreyndin er hins vegar sú að þorri opinberra starfsmanna er á einföldum launatöxtum og vandinn er sá að þessir launataxtar eru allt of lágir. Það er vandinn. Síðan er það og á að vera okkur sameiginlegt úrlausnarefni, að finna út hvernig við fáum úr þessu bætt.

Það sem er líka alvarlegt er að það fólk sem er á lægstu launatöxtunum er jafnframt fólkið sem hefur minnstu yfirvinnuna og það er jafnframt fólkið sem hefur engar sporslur. En það að kalla það að gera hlutina sýnilega, þegar þeir sem hafa aðstöðu til að skammta sér sjálfir, sjálftökuliðið, hvort sem það eru dómararnir eða þeir sem standa ofarlega í launakerfinu, þegar Kjaradómur, sem jafnan hefur verið tæki forréttindahópa til að færa sér umframlaunakjör hjá ríkinu, stimplar misréttið inn í launataxtana og inn í allt réttindakerfið, þar með talin lífeyrisréttindin, að það sé að gera hlutina sýnilega. Ég kalla það að það sé að stimpla misréttið inn og það á ekki að gera.