Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:04:19 (325)

1995-10-16 18:04:19# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég skilji það jafn vel og aðrir þingmenn hvers vegna almenningur er reiður og mér finnst reyndar að tími sé löngu til kominn að fólki fari að rísa upp í kjarabaráttu og reyna að krefjast þar einhvers réttlætis. En varðandi þennan dóm Kjaradóms minni ég á að gerð var mikil breyting á Alþingi árið 1991. Alþingi var breytt á þann veg að það fór að starfa allt árið. Það hefur haft í för með sér --- og reyndar ýmislegt sem er að gerast í okkar samfélagi, aukin erlend samskipti, EES-samningurinn o.fl. --- að vinnuálag hefur aukist alveg gríðarlega á þingmönnum. Þess var farið á leit við Kjaradóm áður en hann felldi sinn dóm 1992 að hann tæki tillit til þessara breytinga og þessarar auknu vinnu.

Enda þótt ég hafi ekki þennan dóm við höndina tel ég að hann hafi m.a. tekið tillit til þess í sínum dómi og við höfum nú verið mjög ósátt við það mörg að ekki hefur verið tekið neitt tillit til þessara breytinga. Breytingunni frá 1992 var snúið til baka með bráðabirgðalögum og síðan hafa launin hækkað um 4% á þremur árum fyrir utan þá hækkun sem núna varð. Auðvitað verður að vera eitthvert samhengi í hlutunum en það verður líka að taka tillit til vinnutíma og vinnuaðstæðna fólks. Ekki trúi ég því að verkalýðsleiðtoginn sjálfur taki ekki undir það að auðvitað á að borga fólki fyrir ef það leggur á sig aukna vinnu. Það var það sem gerðist í þessari stofnun, vinnuálag hefur aukist gífurlega.