Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:06:26 (326)

1995-10-16 18:06:26# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv. að hún var fremur ósátt við það sem fram kemur í þessu frv. að 40 þús. kr. greiðslan skuli vera skattskyld ef frv. þetta verður að lögum. Hún taldi ekki vera neinn mismun á varðandi þennan tiltekna starfskostnað og húsnæðis- og dvalarkostnað þingmanna og þá ferðakostnað og hún talaði um að þetta ætti allt að vera háð skattalegu mati ríkisskattstjóra. Það er einmitt það sem ólgan hefur verið um í þjóðfélaginu að það skuli gila sérlög varðandi ýmsa þætti í greiðslum til þingmanna. Með því frv. sem er til umræðu á einungis að afnema þetta að hluta til, þessi umdeilda 16. gr. er ekki hreinsuð út heldur stendur eftir að það eru þingmenn sem ákvarða að húsnæðis- og dvalarkostnaður og ferðakostnaður skuli ekki vera skattskyldur.

Ég spyr hv. þm. hvort hann sé tilbúinn til þess að styðja okkur sem erum annarrar skoðunar og teljum að það eigi að hreinsa alveg út 16. gr. og að þetta eigi allt að vera háð skattalegu mati ríkisskattstjóra alveg eins og þingmaðurinn orðaði það hér áðan. Er hv. þm. tilbúinn að styðja brtt. þar að lútandi að hreinsa algerlega út þessa 16. gr. þannig að allt, húsnæðiskostnaður, dvalarkostnaður, ferðakostnaður og þessi sérstaka 40 þús. kr. greiðsla verði háð skattalegu mati ríkisskattstjóra?