Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:08:02 (327)

1995-10-16 18:08:02# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því tilefni að hér hefur verið talað um sérlög á þingmenn minni ég á að það eru til fleiri stéttir eða hópar sem um gilda sérstök skattalög eða skattafríðindi. Ég minni þar t.d. á sjómenn. Það kunna að vera fleiri hópar sem njóta slíkra sérstakra lagagreina en varðandi 16. gr. áskil ég mér allan rétt til þess að skoða það mál í heild. Ég var að rekja það áðan að mér finnst ekki vera samræmi í þessum málum með þeirri breytingu eins og hér er verið að gera. Ég tel að ekki eigi að greiða skatt af kostnaðargreiðslum þar sem um er að ræða beinan útlagðan kostnað. Ef fólk leggur út í ákveðinn kostnað á ekki að greiða skatt af því eftir á.

Ég vil áskilja mér allan rétt til þess að skoða alla meðferð þessara mála. Ég er ekki reiðubúin til þess að styðja slíka breytingu á morgun. Ég vil fá að vita hvað það þýðir. Ég vil fá að skoða alla þá þætti sem lúta að starfskjörum þingmanna áður en ég tek afstöðu til þess hvort þessi grein eigi sérstaklega öll að falla út og þetta allt að vera háð mati ríkisskattstjóra sem kemur auðvitað vel til greina en við þurfum bara fyrst og fremst að gefa okkur tíma til þess að skoða þetta og vita hvað við erum að gera.